Sló í gegn í Messi treyju úr plasti

Fimm ára afganskur drengur er nú orðinn internetstjarna eftir að myndir af honum, þar sem hann klæðist heimagerðri knattspyrnutreyju með nafni Lionel Messi, rötuðu á netið. Það sem hefur vakið athygli við treyjuna er að hún er gerð úr plastpoka. Argentínska stjarnan Messi er helsta átrúnaðargoð Murtaza Ahmadi, en alvöru treyja með nafni kappans kostar miklu meira en fjölskylda hans ræður við. Murtaza býr við mikla fátækt í Ghazni héraði, suðvestan við Kabúl, höfuðborg Afganistan.

Eldri bróðir Murtaza, Homayoun, bjó til treyjuna og skrifaði nafn Messi á bakið með tússpenna. Homayoun, sem er fimmtán ára, birti myndir af Murtaza í treyjunni á Facebook fyrir tveimur vikum síðan.

„Nágranni okkar hafði hent út pokum og Murtaza kom með einn og bað mig um að búa til Messi treyju,“ sagði Homayoun í samtali við AFP. Hann segist sjálfur vera aðdáandi knattspyrnufélagsins Barcelona, rétt eins og bróðir sinn.

Jorge Messi, faðir Lionel Messi, sagði í samtali við AFP að knattspyrnuhetjan vissi af drengnum og vildi gera eitthvað fyrir hann.

„Það er enginn fótboltavöllur hérna nálægt og eini boltinn sem ég á er sprunginn,“ sagði Murtuza í samtali við AFP. „Ég elska Messi, hann er mjög góður og ég elska treyjuna sem bróðir minn geri handa mér. Ég vil vera eins og Messi þegar ég verð stór.“

Faðir Murtaza, Mohammad Arif Ahmadi, starfar sem bóndi. Hann vonast til þess að sonur hans verði frábær knattspyrnumaður einn daginn. „Ég vil að sonur minn verði Messi Afganistans,“ sagði hann í samtali við AFP og bætti við að helsti draumur sonar hans væri að hitta Messi í eign persónu.

Þegar að talibanar réðu ríkjum í Afganistan voru íþróttir sjaldan spilaðar og var helsti knattspyrnuleikvangur landsins notaðir yfir aftökur, grýtingar og limlestingar. Í dag eru knattspyrna og krikket vinsælustu íþróttirnar meðal landsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert