Gunnar aldrei jafn léttur löngu fyrir vigtun

Gunnar Nelson berst á sunnudaginn í Rotterdam.
Gunnar Nelson berst á sunnudaginn í Rotterdam. Árni Torfason

Gunnar Nelson hefur aldrei verið jafn léttur löngu fyrir vigtun og bardaga og núna. Þremur dögum fyrir bardagann var hann þremur kílóum yfir hámarki þyngdarflokksins. Þetta segir Pétur Marinó Jónsson, eigandi og ritstjóri vefmiðilsins MMA fréttir, en hann er staddur í Rotterdam þar sem bardaginn fer fram með Gunnari og fylgdarliði hans.

Þrjú kíló þykja ekki mikið í þessu samhengi, en  dæmi eru um að menn léttist um samtals yfir 15 kíló í niðurskurði fyrir keppni. Er þá aðallega horft til þess niðurskurðurinn sé í því formi að þurrka upp líkamann.

Pétur segir að staðan sé góð núna, allir hressir í hópnum og að það sé ekki að skynja á Gunnari að það bíði hans erfiður bardagi eftir tvo daga.

Gunnar kom til Rotterdam á miðvikudaginn, en hafði verið í Dublin á æfingum hjá þjálfara sínum frá því 26. apríl.

Andstæðingur Gunnars, Rússinn Albert Tumenov, er mjög sterkur bardagamaður og þá sérstaklega standandi en hann er mjög höggþungur. Var hann mjög kokhraustur í vikunni og sagðist gera ráð fyrir því að klára Gunnar í fyrstu lotu með rothöggi.

Aðspurður um þessi ummæli Tumenov segist Pétur telja að Tumenov hafi rangt fyrir sér. „Gunni mun taka þetta í fyrstu lotu með uppgjafartaki í gólfinu eða höggum í gólfinu,“ segir hann. Segist hann bjartsýnn á að Gunnar nái Tumenov í gólfið um miðja lotuna. „Gunnar les hann og stekkur svo inn á réttur augnabliki og rífur hann niður,“ segir Pétur.

Bardagakvöldið hefst klukkan 18:00 á sunnudaginn, en Pétur segist gera ráð fyrir að bardagi Gunnars hefjist milli hálf átta og átta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert