Sömu meistaralið í níu tilfellum

Sú einkennilega staða kom upp í vetraríþróttunum þetta árið að níu lið af tíu í hópíþróttunum vörðu Íslandsmeistaratitla sína í meistaraflokki.

Íþróttablaðamenn og íþróttasagnfræðingar framtíðarinnar munu líklega klóra sér í höfðinu þegar þeir skoða árin 2015 og 2016 í íslensku vetraríþróttunum. Í aðeins einu tilfelli af tíu var meisturunum ýtt af stalli þetta árið. 

Sum meistaraliðanna hafa reyndar unnið mörg ár í röð. Karlalið HK í blaki hefur unnið fimm ár í röð og SA-liðin í íshokkíinu eru mjög sigursæl. Þá hafa bæði KR og Snæfell unnið þrjú ár í röð í körfunni.

Eftirfarandi lið urðu Íslandsmeistarar bæði 2015 og 2016:

Handbolti: Haukar (Karlar) og Grótta (Konur)

Körfubolti: KR (Karlar) og Snæfell (Konur)

Blak: HK (Karlar)

Íshokkí: SA (Karlar) og SA (Konur)

Hópfimleikar: Stjarnan (Konur) og Selfoss (Blandað lið)

 Afturelding varð Íslandsmeistari í blaki kvenna og náði þeim titli af HK sem vann 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert