„Ef guð er Íslendingur“ – Bestu línur Gumma Ben

Sigurdansinn dunaði lengi eftir leikinn í gær.
Sigurdansinn dunaði lengi eftir leikinn í gær. AFP

Íslenska þjóðin á margar gersemar sem slegið hafa í gegn í útlöndum. Þar má nefna Björk, Sigur Rós og fleiri hljómsveitir, Eyjafjallajökul og nú síðast landslið karla í knattspyrnu. En ein er gersemin sem við fáum að eiga örlítið meira ein en hinar og sú ber nafnið Guðmundur Benediktsson.

Gummi Ben hefur svo sannarlega náð athygli heimsins með sigurópum sínum en þeir sem ekki kunna íslenskuna fá ekki notið orða hans inn á milli í sama mæli, sem þó eru engu síðri en hátíðnigólin.

Mbl.is tók saman nokkrar skemmtilegustu línurnar sem Gummi lét falla yfir sögulegum sigurleik Íslands gegn Englandi.

Gummi Ben hefur fangað hjarta þjóðarinnar með hnyttnum og einlægum …
Gummi Ben hefur fangað hjarta þjóðarinnar með hnyttnum og einlægum lýsingum sínum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Hann fagnaði marki Ragga með viðeigandi kalli á tungu keppinautanna:

„KING RAGGI! KING RAGGI!“

Hann gerðist ljóðrænn:

„Ragnar rís eins klettur úr hafinu.“

Eftir að Ísland var komið yfir sagði hann áhorfendum sannleikann:

„Fyrir ykkur sem voruð að koma að skjánum.... þið eruð búin að missa helling úr lífinu.“

Ragnar fagnar, eins og klettur úr hafinu.
Ragnar fagnar, eins og klettur úr hafinu. AFP

Þegar Birkir Bjarna kom sér úr erfiðri stöðu fann hann þjóðlega líkingu:

„Hann býr bara til hagnað... eins og bankamennirnir í gamla daga!“

Hann leitaði í trúna:

„Ef guð er Íslendingur þá verður ekki skorað meira í þessum leik.... og ég held röddinni.“

Hann óskaði sér:

„Ef ég ætti eina ósk þá yrði það að uppbótartími yrði bannaður. Bannaður!“

Birkir með faxið flagsandi.
Birkir með faxið flagsandi. AFP

Hann benti á gott uppeldi Emma:

„Mamma hans er flugfreyja og það er farið eftir reglum þar á bæ!“

Hann laug:

„Ég er gjörsamlega, gjörsamlega hlutlaus.“

Undir lokin fagnaði hann eins og honum einum er lagið. Og þá er ekki annað hægt en að skipta í hástafi:

„ÞETTA ER BÚIÐ, ÞETTA ER BÚIÐ! VIÐ ERUM KOMNIR TIL PARÍSAR! VIÐ ERUM ALDREI AÐ FARA HEIM!“

Englendingar horfa á eftir boltanum inn í markið í annað …
Englendingar horfa á eftir boltanum inn í markið í annað skipti. AFP

Og stuttu síðar:

„PÚIÐ EINS OG ÞIÐ VILJIÐ ENGLENDINGAR. ÍSLAND ER AÐ FARA Á STADE DE FRANCE Á SUNNUDAGINN. FRAKKLAND-ÍSLAND. ÞIÐ GETIÐ FARIÐ HEIM. ÞIÐ GETIÐ FARIÐ ÚR EVRÓPU. ÞIÐ GETIÐ FARIÐ BARA HVERT SEM ÞIÐ VILJIÐ. ENGLAND 1 – ÍSLAND 2!“

Hér má svo upplifa þessi síðustu andartök leiksins á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka