Grét á blaðamannafundi eftir lyfjaskandal

Jon Jones á blaðamannafundinum í dag. Hann átti erfitt með …
Jon Jones á blaðamannafundinum í dag. Hann átti erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum þegar hann ræddi við blaðamenn. AFP

Ekkert verður af bardaga Daniels Cormiers og Jons Jones á UFC 200-bardagakvöldinu sem fer fram á laugardaginn. Kvöldið er eitt hið stærsta í sögu UFC-bardagakeppninnar og átti bardagi Cormiers og Jones að vera aðalbardagi kvöldsins. Í morgun tilkynnti lyfjaeftirlit Bandaríkjanna að líklega hefði Jones fallið á lyfjaprófi og fellur bardagi hans því niður. Var prófað fyrir frammistöðubætandi lyfjum.

Á fimmta tímanum í dag hélt Jones fréttamannafund þar sem hann fór yfir málið. Bað hann Cormier afsökunar, sem og aðdáendur og forystumenn UFC. 

Sagðist Jones hafa tekið sömu efnin meirihluta ferils síns og að hann væri andstæðingur þess að notuð væru frammistöðubætandi efni. Sagði Jones það versta núna því vera að hann væri útnefndur svindlari. Það særði hann meira en nokkuð annað á ferlinum.

Jones bað UFC, aðdáendur og Cormier afsökunar á fundinum.
Jones bað UFC, aðdáendur og Cormier afsökunar á fundinum. AFP

Jones átti erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum á fundinum og runnu tár í stríðum straumum hjá þessum bardagamanni sem lengi hefur verið efstur á lista yfir bestu bardagamenn heims, pund fyrir pund. Höfðu blaðamenn á staðnum orð á því að það væri mjög sérstakt að sjá þennan þekkta bardagamann, sem hefði sólarhring áður verið svo sjálfsöruggur og sagt að hann hefði aldrei verið jafn tilbúinn í bardaga, núna vera grátandi fyrir framan blaðamenn og ekki virðast vita hvað hann ætlaði að gera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert