Mikil bardagahátíð næstu daga

Brock Lesnar og Mark Hunt mætast á laugardaginn, en Brock …
Brock Lesnar og Mark Hunt mætast á laugardaginn, en Brock snýr aftur úr glímunni eftir nokkurra ára fjarveru úr UFC. Mynd/UFC

Í kvöld hefst ein mesta bardagahátíð sem unnendur blandaðra bardagaíþrótta hafa fengið að sjá, en samtals fara fram þrjú bardagakvöld á þremur dögum í Las Vegas í Bandaríkjunum. Samtals er um að ræða 35 bardaga, þar af þrjá titilbardaga, gamla jarðýtu sem mætir aftur til leiks og fjölmarga fyrrum meistara sem berjast. Hátíðin nær hámarki á laugardagskvöldið þegar UFC 200 bardagakvöldið fer fram. 

Fyrst er það þó UFC Fight Night sem fer fram í kvöld. Þar fer fram einn titilbardagi í léttvigt á milli Rafael dos Anjos sem er núverandi meistari og áskorandans Eddie Alvarez.  Roy Nelson mætir þetta sama kvöld Derrick Lewis í þungavigtinni og Írinn Joseph Duffy mætir Mitch Clarke, en Duffy er einn af þremur bardagamönnum sem hefur sigrað Conor McGregor í búrinu.

Á föstudaginn er svo úrslitakvöld The Ultimate Fighter 23 keppninnar, en þar mætast einnig Joanna Jędrzejczyk og Cláudia Gadelha í titilbardaga í strávigt kvenna.

Á laugardaginn er svo stóra kvöldið sjálft. Þar áttu að mætast þeir Daniel Cormier og Jon Jones í titilbardaga í léttþungavigt í aðalbardaga kvöldsins. Í dag var aftur á móti hætt við bardagann þegar lyfjaeftirlit Bandaríkjanna tilkynnti að líklega hefði Jones fallið á lyfjaprófi þar sem prófað var fyrir frammistöðubætandi lyfjum. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir UFC samtökin, aðdáendur og ekki síst Cormier sem hefði með þessu fengið einn af stærri bardögum ferilsins. Var fastlega búist við að þetta yrði einn af stærstu bardögum ársins, enda um endurkomu Jones að ræða.

Forsvarsmenn UFC hafa ekki útilokað að einhver annar muni koma í stað Jones, en ólíklegt er að sá bardagi verði jafneftirsóttur fyrir aðdáendur og Cormier á móti Jones. Tilkynnt var í dag að bardagi glímukappans og jarðýtunnar Brock Lesnar gegn Nýsjálendingnum Mark Hunt verði aðalbardagi kvöldins, en Lesnar er að mæta aftur til leiks eftir nokkurra ára fjarveru. Verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig Lesnar kemur þar til leiks, en hann hefur ekkert barist í MMA undanfarin ár.

Jon Jones mætti á blaðamannafund í dag þar sem hann …
Jon Jones mætti á blaðamannafund í dag þar sem hann baðst afsökunar á gjörðum sínum. Ekki er ljóst hvað tekur við hjá honum í framhaldinu. AFP

Í þriðja síðasta bardaga kvöldsins mætast þær Miesha Tate, sem er meistari í bantamvigt kvenna, og Amanda Nunes. Þá mætir José Aldo Frankie Edgar, en José tapaði eftirminnilega á móti McGregor í titilbardaga í fyrra.

Brýnin Cain Velasquez og Travis Brown mætast svo í þungavigtarbardaga, en Velasquez er fyrrverandi meistari sem miklar vonir voru bundnar við fyrir nokkru síðan. Fleiri þekkt nöfn er að finna á þessu bardagakvöldi, en þar eru meðal annars Cat Zingano, Johny Hendricks og Kevlin Gastelum, T.J. Dillashaw, Sage Northcutt og Joe Lauzon.

Bardagakvöldin hefjast öll klukkan 2 um nóttina og verður sýnt frá UFC 200 á Stöð 2 sport. Hin kvöldin eru í boði á Fight Pass í gegnum ufc.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert