Framlög til ÍSÍ fjórfölduð

Framlag til ÍSÍ hækkar úr 100 milljónum í 400 milljónir …
Framlag til ÍSÍ hækkar úr 100 milljónum í 400 milljónir á næstu þremur árum. mbl.is/Freyja Gylfa

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Íþrótta og Ólympíusamband Íslands undirrituðu í dag tímamótasamning til næstu þriggja ára um stóraukið fjárframlag ríkisins til afreksíþrótta á Íslandi. Framlagið mun hækka í áföngum úr 100 milljónum á fjárlögum síðasta árs í 400 milljónir á næstu þremur árum og er því um fjórföldun að ræða.

Í fréttatilkynningu frá ÍSÍ segir Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ að nýi samningurinn muni leiða til byltingar fyrir sambandið enda hafi það haft úr allt of litlu að spila til að aðstoða sérsambönd ÍSÍ og afreksfólk til að helga sig íþrótt sinni og ná sem bestum árangri.

 „Margt afreksfólk hefur búið við það að meiri tími hefur farið í að fjármagna ferðir, þjálfarakostnað og uppihald heldur en að æfa og undirbúa sig fyrir keppnir. Við höfum eingöngu getað hjálpað þeim sem hafa náð miklum árangi, en umtalsverður kostnaður fylgir því að ferðast og keppa til að tryggja sér þátttökurétt á t.d. Ólympíuleikunum. Sá kostnaður lendir oft á tíðum að miklu leyti á keppandanum sjálfum,“ segir Lárus.

„Það er allt of algengt að íslenskt afreksíþróttafólk hætti of snemma og samkvæmt því sem við höfum kannað er það oftar en ekki vegna erfiðleika við fjármögnun eða vanlíðan vegna fjárhagsáhyggja. Vonandi mun þessi samningur koma í veg fyrir mikið brottfall af fjárhagslegum ástæðum,“ bætir hann við.

Lárus telur samninginn mjög þýðingarmikinn fyrir íþróttastarf í landinu. „Hér er um algera byltingu fyrir afreksíþróttir að ræða og við þökkum ríkisvaldinu fyrir að hafa trú á því að árangur í íþróttum skipti þjóðina máli, og að það þurfi aukið fjármagn til að hann náist. Við erum nú komin mun nær því að geta byggt upp umgjörð fyrir afreksíþróttafólkið okkar í líkingu við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar, þó við náum líklega aldrei alveg jafn góðum aðbúnaði og þær mun fjölmennari þjóðir. Þessi niðurstaða er árangur samningaviðræðna okkar til nokkurra ára og í kjölfar ítarlegrar greiningar á fjárþörf afreksíþrótta á Íslandi. Það sýndi sig þegar KSÍ náði að laga til umgjörðina sína utan um landslið sín að árangurinn kom fljótt í ljós. Við vonum að þessi auknu framlög í Afrekssjóð ÍSÍ muni gera öðrum sérsamböndum kleift að bæta umgjörðina utan um sína afreksmenn.“

mbl.is