„Miðað við allan undirbúning og hvernig honum hefur gengið þá erum við að vonast eftir verðlaunum. Er það okkar markmið,“ sagði Kári Jónsson, þjálfari Helga Sveinssonar, við mbl.is en Helgi keppir í spjótkasti á Ólympíumóti fatlaðra, Paralympics, í kvöld.
„En einnig hefur okkar markmið alltaf verið að ná að kasta yfir 60 metra. Ef hann nær því þá ætti hann að vinna keppnina. En maður veit svo sem aldrei. Oft koma kastarar úr djúpinu sem hafa kannski ekki verið með sterka stöðu á heimslistanum. Til dæmis koma oft sterkir keppendur frá Kína sem ekki eru þekktir. En Helgi er alla vega tilbúinn til að kasta mjög langt og ég á von á því að hann geri það.“
Helgi er í góðu líkamlegu ásigkomulagi og virðist hafa hrist af sér eymsli sem stríddu honum aðeins í sumar.
„Hann var með vandamál í bakinu, í brjósthryggnum, fyrr í sumar. Þá greindist hann með útbungun eins og brjósklos. Þá breyttum við styrktaræfingum og léttum æfingarnar. Hann hefur verið á mikilli uppleið síðan. Ég gæti trúað því að hann hafi aldrei verið í jafn góðu formi, þannig lagað. Á æfingum undanfarið hefur hann sýnt það og kastað mjög langt. En þegar komið er inn á völlinn þá þarf að halda haus sem er gömul saga og ný,“ sagði Kári ennfremur.