Helgi Sveinsson, spjótkastari úr Ármanni, leyndi ekki vonbrigðum sínum þegar mbl.is ræddi við hann á Ólympíuleikvanginum í Ríó í kvöld þar sem Helgi hafnaði í 5. sæti en bar sig þó vel. Helgi var með væntingar um að kasta lengra en niðurstaðan varð sem var 53,96 metrar.
„Ég var of fljótur að opna. Það er einföld lýsing og þeir sem þekkja til vita hvað ég er að tala um þar. Ég var aðeins of fljótur á mér. Var of æstur. Gaf mér ekki tíma til að bíða og vinna á hægri fætinum inn í fjöðrunina. Um leið og ég geri það kasta ég langt en ég var aðeins of fljótur á mér,“ sagði Helgi meðal annars en hann náði fínu kasti í fyrstu tilraun sem reyndist lengsta kast kvöldsins. Átti það að vera öryggiskast til að koma sér af stað og tryggja sig á meðal þeirra átta efstu sem fá að halda áfram eftir þrjár umferðir og kasta sex sinnum alls. Í því kasti virðist Helgi hafa verið afslappaðri og mýkri heldur en í þeim fimm sem eftir komu en þau voru í kringum 50 metrana og rúmlega.
„Já ég ætlaði að hafa það sem öryggiskast og ætlaði ekki að setja neina áreynslu í það. Þannig er það oft í þessari tæknigrein að þegar þú hugsar ekki um að kasta langt að þá kastarðu langt. Það kemur annað mót eftir þetta og það verður bara gaman að keppa við þá næst.“
Sigurvegarinn, Akeem Stewart frá Trínidad, kastaði rúma 57 metra strax í fyrstu umferð og var næstur á undan Helga í kaströðinni í fyrri hluta keppninnar. Hafði þetta frábæra kast sigurvegarans einhver áhrif á Helga og hina keppendurna?
„Ég er ótrúlega sáttur við sjálfan mig í þessari keppni hvað það varðar að ég lét köstin hjá hinum ekki trufla mig eða setja mig út á laginu. Nálgunin í atrennunni hjá mér var eitthvað úr takti við það sem ég hef gert á æfingum. Ég kastaði jafn langt og Stewart og jafnvel lengra á upphitunarvellinum fyrir keppnina. Með þeim köstum hefði ég ef til vill unnið þessa keppni en þetta fór eins og það fór,“ sagði Helgi Sveinsson ennfremur við mbl.is í kvöld.
Lengsta kast Helga á ferlinum er 57,36 metrar og er heimsmet í hans flokki, F42. Kastið í kvöld er jafnframt Ólympíumótsmet í þeim flokki. Á Ólympíumótinu eru hins vegar þrír flokkar settir saman í eina keppni en sú breyting varð fyrir nokkrum árum. Helgi hafnaði í 3. sæti í sameinaða flokknum á HM í Doha í fyrra.