Kvennalandsliðið efst í undankeppninni á EM

Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum varð efst í undankeppni Evrópumótsins í Maribor í Slóveníu en keppni var að ljúka. Úrslitin fara fram á laugardaginn. Ísland fékk 56.016 stig. Danir voru í öðru sæti með 55.966 og Svíar höfnuðu í þriðja sæti með 55.200.

Íslenska liðið á engu að síður mikið inni fyrir úrslitin á laugardaginn. M.a. voru þrjár öflugar stúlkur í stökki hvíldar í dag auk þess sem nokkra lendingar hefðu getað verið betri. 

Íslenska liðið geislaði af gleði meðan keppnin fór fram. Kolbrún Þöll Þorradóttir heimsfrumsýndi nýtt stökk í undankeppninni í dag.

Úrslitin í kvennaflokki hefjast klukkan 13 á laugardag.

Fylgst var með framvindu keppninnar á mbl.is í beinni textalýsingu.

Kl. 17.25 Þar með hefur kvennaliðið lokið forkeppninni. Trampolínstökkin tókust misjafnlega og sérstaklega reyndist önnur umferðin erfið. Kolbrún Þöll Þorradóttir sýndi í lokastökki sínu tvöfalt heljastökk með þremur og hálfri skrúfu. Slíkt stökk hefur aldrei áður verið gert í keppni í heiminum, skal ég segja ykkur.

Kl. 16.59 Einkunnin liggur fyrir eftir dýnustökkið. Hún er 16.700, um 0,7 lægri en hjá Dönum áðan. Þess ber þó að geta að íslenska liðið á mikið inni fyrir úrslitin á laugardaginn því þjálfararnir ákváðu fyrir keppnina að hvíla þrjá af bestu stökkvurum hópsins. Nú er leikin refskák. Það á að tefla fram leynivopnum í úrslitunum. 

Kl. 16.54 Þá er dýnustökkið að baki hjá íslenska liðinu. Önnur umferðin var áberandi best hjá liðinu. Örlitlir hnökrar í einni lendingu í fyrstu umferð og aðeins basl í þriðju umferðinni. Sjáum til hvað setur.

Kl. 16.46 Víkingaklapp í salnum. Tókst mun betur núna en áðan þegar blönduðu liðin voru að keppa. Slóvenum er að fara fram í þessu efnum.

Kl. 16.30 Nú liggur fyrir einkunn íslenska liðsins fyrir dansinn, hún er 21.916 sem verður að teljast afar gott.

Kl. 16.20 Íslenska sveitin var fyrst í röð átta sveita og byrjaði á dansinum. Ekki var annað að sjá en afar vel hafi tekist til við hann. Nú er að bíða einkunnar.

Kl. 16.13 Velkomin með mbl.is í beina textalýsingu frá undanúrslitum í hópfimleikum kvenna á Evrópumeistaramótinu. Keppnin fer fram í Lukna-íþróttahöllinni í Maribor í Slóveníu. Íslenska sveitin er klár í slaginn en Ísland varð Evrópumeistari 2010 og 2012 og hafnaði í öðru sæti fyrir tveimur árum á heimavelli. Svíar eru ríkjandi meistarar. Í dag er hins vegar ekki hugsað um gull eða silfur heldur að tryggja sér sæti í úrslitum sem fram fara á laugardaginn. Sveitir átta landa taka þátt í undankeppninni. Af þeim komast sex áfram í úrslit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert