Ég er yfir mig glöð

Blandað sveit Íslands glaðbeitt á verðlaunapalli í Lukna-höllinni í Maribor …
Blandað sveit Íslands glaðbeitt á verðlaunapalli í Lukna-höllinni í Maribor í dag. Ljósmynd/Steinunn Anna

„Biðin eftir síðustu einkunninni tók hrikalega á en niðurstaðan var svakalega  skemmtileg,” sagði Tanja Ólafsdóttir annar fyrirliði blönduðu unglingasveitar Íslands eftir að hún hreppti bronsverðlaun eftir spennuþrungna bið eftir niðurstöðu í síðustu grein dagsins á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Maribor í dag.

Lengi var beðið eftir niðurstöðu dómara eftir dansinn en þegar hún lá fyrir, 21.700 greip um sig svakalegur fagnaður hjá Tönju og félögum. „Þetta var hrikalega spennandi. Við erum ofsalega glöð og stolt yfir að keppa fyrir Íslands hönd á þessu móti og vinna til bronsverðlauna. Við stefndum á pall og náðum markmiði okkar. Ég er yfir mig glöð,” sagði Tanja þegar mbl.is náði tali af henni eftir verðlaunaafhendinguna.

„Við erum Evrópumeistarar í dansinum eftir það sem við sýndum í dag og bronsverðlaunahafar yfir heildina. Þetta er hreinlega ólýsanlegt, ekki síst eftir þessa spennu og bið í lokin,” sagði Tanja og var eðlilega mjög hátt uppi.

„Það var æðislegt að standa á pallinum og finna fyrir stuðningi allra íslensku áhorfendanna í keppninni. Ég segi takk fyrir okkar til þeirra,” sagði Tanja Ólafsdóttir, einn bronsverðlaunahafa í blönduðum flokki unglinga á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert