Hópfimleikar eru æðislegir

Norma Dögg Róbertsdóttir
Norma Dögg Róbertsdóttir mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Norma Dögg Róbertsdóttir er margfaldur Íslandsmeistari í áhaldafimleikum og hefur margoft tekið þátt í stórmótum í þeirri grein fimleika. Á vordögum ákvað hún að söðla um og segja skilið við áhaldafimleikana og snúa sér að æfingum og keppni í hópfimleikum. Norma Dögg er í keppnisliði Íslands sem nú tekur þátt í Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem fram fer í Maribor í Slóveníu þessa dagana.

„Munurinn á þessum tveimur greinum innan fimleikanna er talsverður. Í fyrsta lagi eru áhöldin sem keppt er á mismunandi milli greina og talsvert ólík,“ sagði Norma Dögg þegar Morgunblaðið hitti hana að máli í Maribor í fyrradag. „Það má segja að um tvær mismunandi íþróttir sé að ræða. Einn munurinn er að í hópfimleikum er maður hluti af liði og liðsheild en í áhaldafimleikunum er maður einn eða ein og stendur alfarið og fellur með eigin frammistöðu.

Það er mun meiri stemning og læti í kringum keppni í hópfimleikum. Innan liðsins hvetja liðsmenn hver annan til dáða. Segja má að mun meiri alvara ríki í áhaldafimleikum, einbeiting hvers keppanda að sér sjálfum er meiri, menn eru hljóðlátari í keppni. Annarsvegar er maður einn í áhaldafimleikum og hefur ekki á neinn að treysta í keppninni nema sjálfan sig. Hinsvegar er liðsheildin eitt aðalsmerki góðs hópfimleikaliðs.“

Þeim kafla í lífinu lokið

„Ég er mjög ánægð með að hafa breytt til og prófað að vera hluti af liði í keppni,“ sagði Norma Dögg. Aðspurð sagðist hún ekki ætla að skipta yfir í áhaldafimleika á nýjan leik. Hennar tími í þeim væri að baki. „Ég var í 17 ár í áhaldafimleikum. Þeim kafla í lífinu er lokið,“ sagði Norma Dögg og brosti og virðist alsæl með ákvörðun sína. „Ég er ekki á leiðinni aftur í áhaldafimleika,“ sagði Norma Dögg sem var á síðustu árum ferils síns í áhaldafimleikum ein allra fremsta fimleikakona Evrópu í stökkum. M.a. vann hún gullverðlaun á Norður-Evrópumótum og Smáþjóðaleikunum sem fram fóru í Reykjavík á síðasta ári.

Nánar er rætt við Normu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert