Magnað að standa á efsta palli

Stúlknalandslið Íslands í dansæfingum sínum á EM í hópfimleikum í …
Stúlknalandslið Íslands í dansæfingum sínum á EM í hópfimleikum í dag. Ljósmynd/Steinnunn Anna Svansdóttir

„Ég er eiginlega orðlaus eftir þetta, trúi vart því sem gerðist,“ sagði Eyrún Inga Sigurðardóttir, nýbakaður Evrópumeistari stúlkna í hópfimleikum, þegar mbl.is náði tali af henni fyrir stundu eftir að hún hafði tekið við gullverðlaunum ásamt samherjum sínum 12 í stúlknasveit Íslands sem vann keppnina í Lukna-íþróttahöllinni í Maribor í Slóveníu með yfirburðum í dag.

„Allar æfingar síðustu vikna og mánaða skiluðu sér þegar á hólminni var komið. Við byrjuðum á geggjuðum gólfæfingum sem gáfu svo sannarlega tóninn,“ sagði Eyrún Inga.

„Eftir keppnina var síðan algjörlega magnað að standa á efsta palli og taka við verðlaununum. Íslensku áhorfendurnir voru frábærir og gaman að taka við verðlaununum í þessari stemningu,“ sagði Eyrún Inga enn fremur.

„Allt gekk upp í dag. Við gerðum okkar allra, allra besta í keppninni og uppskárum í samræmi við það. Stefnan var að fara alla leið og tókst og það og með nokkrum yfirburðum, vorum nærri tveimur stigum á undan Dönum sem er mjög mikið.

Síðustu vikur og mánuðir hafa verið erfiðir við æfingar en allt það skilaði sér og var fullkomlega þess virði þegar maður stendur á verðlaunapallinum og tekur við gullverðlaunum á Evrópumeistaramóti,“ sagði Eyrún Inga Sigurðardóttir, nýbakaður Evrópumeistari stúlkna í hópfimleikum, í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert