Negldum á dansinn

Blandaða unglingaliðið fagnar eftir að það vann bronsverðlaun á Evrópumeistararmótinu …
Blandaða unglingaliðið fagnar eftir að það vann bronsverðlaun á Evrópumeistararmótinu í hópfimleikum í Slóveníu í dag. Ljósmynd/Steinunn Anna Svansdóttir

„Við vissum ekkert við hverju var að búast með við biðum eftir einkunninni fyrir dansinn. Ég reiknaði alveg eins með að við myndum hafna í fjórða sæti en dansinn gekk frábærlega upp og við urðum Evrópumeistarar í honum,” sagði Helgi Laxdal Aðalgeirsson, einn liðsmanna blönduðu unglingasveitar Íslands eftir að sveitin hafnaði í þriðja sæti og hlaut bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Maribor í Slóveníu í dag.

Biðin var nokkur eftir einkunni fyrir dansinn en þegar hún lá fyrir, 21.700 ætlaði allt um koll að keyra í íslenska liðinu og meðal fjölmargra stuðningsmanna. Hæsta einkunn sem gefin var fyrir dans í þessum keppnisflokki.

„Það tók ferlega á að bíða, var mjög stressandi,” sagði Helgi Laxdal. „Eftir frábærar æfingar á dýnunni þá féllum við aðeins niður í trampólínstökkunum. Þess vegna urðum við að leggja allt í dansinn og það tókst. Við negldum hann og urðum Evrópumeistarar í greininni,” sagði Helgi og var eðlilega glaður eins og allir liðsmenn og aðstandendur íslenska landsliðsins sem sungu og dönsuðu um ganga íþróttahallarinnar í Maribor.

„Markmið okkar var að vera í einu af efstu sætunum þremur og það tókst, bæði í undankeppninni og aðalkeppninni í dag,” sagði Helgi Laxdal Aðalgeirsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert