Hreinlega geggjað hjá okkur

Einar Karelsson með bronsverðlaunapening sinn eftir keppnina á EM í …
Einar Karelsson með bronsverðlaunapening sinn eftir keppnina á EM í hópfimleikum í morgun. mbl.is/Ívar

„Þetta var hreinlega geggjað hjá okkur,” sagði Einar Karelsson einn liðsmanna blönduðu sveitar Íslands í hópfimleikum eftir að hann hafði tekið við bronsverðlaunum ásamt félögum sínum á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Maribor í Slóveníu. Þetta er í fyrsta sinn sem blandað eldra lið Íslands vinnur til verðlauna á EM.

„Við stefndum allan tímann á pallinn. Það var það eina sem við hugsuðum um í morgun,” sagði Einar en í undankeppninni varð sveitin í fimmta sæti. Sveitin bætti sig í öllum greinum frá undankeppninni. „Við sáum eftir undankeppnina að möguleikar voru fyrir hendi að bæta okkur á öllum sviðum og við forum bara í það og allt gekk upp,” sagði Einar sem var skiljanlega glaður í bragði.

„Allt það sem við ræddum um að bæta gekk eftir og fyrir vikið hækkuðum við mikið. Það má segja að allt hafi gengið upp,” sagði Einar og viðurkenndi að það hafi verð nokkur spenna að bíða nær alla lokaumferðina eftir einkunnum Breta og Norðmanna sem gátu skákað íslenska liðin sem var fyrst í keppnisröðinni í hverri umferð.

„Við höfðum smá áhyggjur fram yfir dansinn hjá Bretunum og eftir að einkunn þeirra var opinber þá gátum við fagnað. Nú erum við uppskera eftir marga mánaða æfingar og jafnvel margra ára hjá sumum,” sagði Einar Karelsson, einn liðsmanna bronssveitar Íslands í flokki blandaðra liða á Evrópumótinu í hópfimleikum í samtali við mbl.is fyrir stundu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert