Kvennalandsliðið vann silfrið á EM

Kvennlandslið Íslands í dansæfingum á EM í Maribor.
Kvennlandslið Íslands í dansæfingum á EM í Maribor. Ljósmynd/Steinunn Anna

Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum hafnaði í öðru sæti á Evrópumeistaramótinu í Maribor í Slóveníu en keppni var að ljúka. Svíar urðu Evrópumeistarar, þeir fengu 0.284 stigum meira en Íslendingar. Þetta er annað Evrópumótið í röð sem íslenska liðið hlýtur silfurverðlaun eftir tvenn gullverðlaun 2010 og 2012. Svíar urðu nú Evrópumeistarar í annað sinn í röð.

Sænska liðið fékk samtals 57.250 stig en það íslenska 56.966. Danir voru í þriðja sæti með 55.916. Þar á eftir voru Finnar, Norðmenn og Bretar.

Íslenska liðið bætti sig úr 56.016 í forkeppninni upp í 56.966 en það nægði ekki. Svíar, sem voru í öðru sæti í forkeppninni, bættu sig meira. Einhvern neista vantaði í íslenska liðið í úrslitunum í dag en það stefndi ótrautt á að tryggja sér Evrópumeistaratitilinn.

Niðurstaðan af mótinu er framúrskarandi fyrir Íslands; gullverðlaun í stúlknaflokki, silfur í kvennaflokki og bronsverðlaun hjá báðum blönduðu liðunum, því eldra og yngra, þótt vissulega hafi verið verið vonast eftir gullverðlaunum í kvennaflokki.

Fylgst  var með gangi keppninnar í beinni textalýsingu á mbl.is.

Kl. 14.27 Þar með er það ljóst að íslenska landsliðið fær silfurverðlaun. Það fékk 17.500 stig fyrir dýnustökkið og það dugir ekki til þess að skáka sænska liðinu saman lagt. Svíar fengu samtals 57.250 stig, íslenska liðið 56.966 stig.

Kl. 14.23 Svíar fengu 22.650 fyrir dansinn og standa vel að vígi. Ísland þarf um 17.8 fyrir dýnustökkin til þess að verða Evrópumeistari. Spennan er gríðarleg í salnum.

Kl. 14.22 Dýnustökkum er lokið hjá íslenska liðinu sem hefur þar með lokið keppni en liðið átti síðasta atriði kvennakeppninnar. Nú er að bíða og vona.

Kl. 14.04 Þá liggur niðurstaða dómaranna fyrir. Íslenska kvennaliðið fékk sömu einkunn fyrir dansæfingar sínar í dag og það fékk í undankeppninni, 21.916. Þar með er íslenska liðið komið vel fram úr Dönum, sem einnig hafa dansað, og nokkuð ljóst að baráttan um gullið verður við Svía. Þeir eiga dansinn eftir í lokaumferðinni með íslenska liðið lýkur keppni með dýnustökkum. Nötrandi spenna.

Kl. 13.55 Ekki var annað að sjá en dansinn hafi tekist afar vel hjá íslensku stúlkunum, að minnsta kosti fyrir leikmann að sjá. Stúlkurnar fengu 21.916 fyrir dansæfingarnar í forkeppninni. Ég er sannfærður um að þær fá meira að þessu sinni.

Kl. 13.29 Þá liggur einkunnin fyrir eftir trampólínstökkin. Íslands fékk 17.550 stig, sem er 0.150 stigum meira en í forkeppninni. Sveitin er í þriðja sæti eftir fyrstu umferð. Danir og Norðmenn eru fyrir ofan en lið beggja þjóða voru í dansi í fyrstu umferð og hann gefur flest stig allra greinanna þriggja.

Kl. 13.25 Ljómandi flott stökk hjá kvennalandsliðinu. Fyrsta og síðasta stökk í hverri umferðgengu vel en þau munu hafa mikið að segja þegar dæmið er gert upp. Nú bíðum við eftir einkunnum.

Kl. 13.09 Kolbrún Þöll Þorradóttir mun ekki reyna við ofurstökk sitt í úrslitunum í dag, en hún heimsfrumsýndi það í undankeppninni í fyrradag. Ákveðið hefur verið að taka enga áhættu í úrslitunum með því að reyna slíkt stökk því ef það heppnast þá gæti það kostað kvennalandsliðið sigurinn í jafnri keppni sem útlit er fyrir.

Kl. 13.08 Fjörið er hafið inn í sal. Áhorfendapallarnir eru þéttsetnir þótt lið heimamanna séu ekki að keppa. Hér í Maribor er mikill áhugi fyrir fimleikum. Sumir segja borgina vera Mekka fimleika í Slóveníu. Ekki skal ég fullyrða neitt í þeim efnum. Hér er líka talsverður hópur með Svíum og Dönum auk mjög margra Íslendinga, sennilega hátt í 100.

Kl.12.31 Íslenska kvennaliðið verður síðast í röð sex liða í hverri umferð í keppninni í dag. Auk Íslands, Danmerkur og Svíþjóðar eiga Finnland og Bretland keppnislið í úrslitum.

Kl. 12.30 Hálftími er þangað til keppni í kvennaflokki hefst. Mikil eftirvænting ríkir í loftinu í Lukna-íþróttahöllinni, ekki síst meðal fjölmargra Íslendinga sem hér eru. Miklar vonir eru bundnar við íslenska kvennalandsliðið í þessari keppni en það varð efst í forkeppninni á fimmtudaginn. Svíar og Danir verða væntanlega skæðustu keppninautar Íslands. Svíar eru ríkjandi Evrópumeistarar. Ísland vann gull á EM 2010 og 2012 í þessum flokki og hlaut silfur fyrir tveimur árum.

Stúlknalandslið Íslands vann gullverðlaun á mótinu í gær með frábærri frammistöðu. Nú er bara að vona að eldra liðið fylgi þeim yngri eftir.

Kvennalandsliðið í hópfimleikum með silfurverðlaun sín á EM 2016.
Kvennalandsliðið í hópfimleikum með silfurverðlaun sín á EM 2016. mbl.is/Ívar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert