Þriðju verðlaunin í höfn á EM

Blandaða landsliðs Íslands sem vann til bronsverðlauna á EM í …
Blandaða landsliðs Íslands sem vann til bronsverðlauna á EM í hópfimleikum rétt fyrir hádegið. mbl.is/Ívar

Blandað landslið Íslands í hópfimleikum vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Maribor í Slóveníu í dag. Sveitin bætti sig í öllum þremur greinum frá undankeppninni og skaut sveitum Breta, Norðmanna og Ítala aftur fyrir sig með frábærri frammistöðu. Íslenska sveitin fékk samtals 56.066 stig fyrir greinarnar þrjár.

Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem blönduð eldri sveit Íslands vinnur til verðlauna á Evrópumóti í hópfimleikum. Sé það rétt er um tímamót að ræða.

Þetta eru þriðju verðlaun Íslands á Evrópumótinu að þessu sinni. Blönduð sveit unglinga vann brons í gær og stúlknasveitin gerði sér lítið fyrir og varð Evrópumeistari.

Svíar urðu Evrópumeistarar í blönduðum flokki. Þeir unnu Dani á lokasprettinum. Sænska sveitin hlaut samtals 59.816 stig en Danir fengu 58.360 stig.

Fylgst var með gangi keppninnar í beinni textalýsingu á mbl.is.

Kl. 11.54. Staðfest! Íslands vinnur til bronsverðlauna í blönduðum flokki. Norðmenn fengu rúmlega 20.9 fyrir dansinn sem dugði þeim til 5. sætis. Bretar eru fjórðu, Ítalir sjöttu. Ísland fær brons, önnur bronsverðlaun sín í blönduðum flokki á þessu móti því blandaða unglingaliðið vann bronsverðlaun í gær.

Kl. 11.44 Þriðju verðlaun Íslands á EM í hópfimleikum að þessu sinni eru innan seilingar. Bretar fengu ekki nema 18.983 fyrir dansatriðið sitt sem dugir ekki til þess að ryðja íslenska liðinu úr þriðja sæti. Norðmenn eiga enn fræðilega möguleika til þess að ná íslenska liðinu en til þess þurfa þeirra að fá rúmlega 22.000 fyrir dansinn sem þykir langsótt að sögn þeirra sem þekkingu hafa á.

Kl. 11.37 Íslenska sveitin fékk 17.200 fyrir trampólínstökkin, hlaut 16.900 í undankeppninni. Bretar þurfa 20.267 til þess að fara yfir íslenska liðið og hirða bronsverðlaunin. Blandaða liðið bætti sig verulega í öllum þremur atriðum frá undankeppni. Þetta kallast að toppa á réttum tíma. Nú er bara að bíða eftir dansæfingum Breta og einkunn þeirra.

Í undankeppninni fékk íslenska liðið 53.416 en núna í úrslitum 56.066 stig

Kl. 11.33 Íslenski hópurinn hefur lokið keppni. Trampólínstökkin heppnuðust afar vel, ég sá aðeins eitt fall. Þá er bara að bíða einkunnar og dansatriðis Bretanna en sennilega stendur keppnin um bronsið við þá. Gull- og silfurverðlaunin virðast frátekin fyrir Svía og Dani.

Kl. 11.28 Ísland er í þriðja sæti fyrir lokaumferðina. Danir og Svíar eru fyrir ofan. Nokkuð ljóst er að íslenska liðið verður að ná a.m.k. 17.000 í trampólínstökkum í lokaumferðinni til þess að eiga möguleika á bronsinu.

Kl. 11.10 Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman sem átti að keppa með blandaða liðinu í dag veiktist í nótt er því ekki með að þessu sinni. Bára Stefánsdóttir tók sæti Kolbrúnar Júlíu í liðinu.

Kl. 11.08 Einkunnin liggur fyrir eftir stökkið, 17.800 - mikil framför frá undankeppninni þegar liðið fékk 15.950. 

Kl. 11.02 Einstaklega vel heppnuð dýnustökk hjá Normu Dögg Róbertsdóttur og félögum í íslenska liðinu. Ekkert fall og mikill kraftur í mannskapnum sem geislaði að gleði.  Maður fer nú að verða bjartsýnn á að liðið verði í verðlaunabaráttu eftir tvær afar vel heppnaðar æfingar.

Kl. 10.55 Danir gerðu afar vel í dansinum og fengu 21.800 stig að launum. Danska og íslenska sveitin voru þær einu sem gerðu dansæfingar í fyrstu umferð.

Kl. 10.47 Nú liggur einkunnin fyrir eftir dansinn hjá íslenska liðinu og hún er afar góð, 21.066 sem framför frá undankeppninni þegar þau fengu 20.566.  Krakkarnir hafa byrjað af krafti.

Kl. 10.36 Það held ég nú. Dansæfingarnar tókust afbragðsvel, eftir því sem ég fékk séð. Flott byrjun hjá íslenska liðinu og lofandi fyrir framhaldið.

Kl. 10.30 Þá fer keppnin að hefjast. Eftir tvær mínútur hefur íslenska liðið keppni fyrst liðanna. Liðið á byrja dansæfingar sínar kl. 10.32.

Kl. 10.22 Fyrir utan þrjá íslenska fjölmiðlamenn hef ég orðið var við fjóra fjölmiðlamenn frá öðru löndum í blaðamannamiðstöðinni í Lukna-íþróttahöllinni í morgun. Þar á meðal dönsk kona sem situr fyrir aftan mig. Hún með kaffibrúsa með sér. Treystir greinilega ekki á veitingarnar í aðstöðu blaðamanna þar sem kaffi hefur verið af skornum skammti fram til þessa. Kannski verður breyting þar á í dag.

Kl. 10.19 Eftir bærilega bjarta og hlýja síðustu daga í Maribor fór að rigna fyrir stundu. Rigningin lá í lofti í morgun þegar tíðindamaður fór í heilsubótargönguferð eftir morgunmat. Rigningarinnar verður þó ekki vart innandyra hjá Lukna-íþróttahöllinni.

Kl. 10.10 Upphitun stendur enn yfir í keppnisalnum enda eru enn 20 mínútur þangað til keppni hefst. Íslenski keppnishópurinn er klár í slaginn. Spennan vex með hverri mínútu.

Kl. 10.01 Nú liggur það fyrir að íslenska liðið verður fyrst fram á gólfið í hverri umferðanna þiggja sem framundan eru. Liðið byrjar á dansæfingum, fer í dýnustökk í annarri umferð og endar með trampólínstökkum.

Kl. 10 Mbl.is býður lesendum sínum góðan dag úr Lukna-íþróttahöllinni í miðborg Maribor, næst fjölmennustu borgar Slóveníu. Eftir hálftíma hefst keppni blandaðra eldri liða, þó ekki mjög gamalla keppenda. Þeir eru flestir um og rétt yfir tvítugu en eru of gamlir til þess að falla undir unglingaflokk. Sex sveitir reyna með sér í baráttunni um verðlaun í þessum flokki. Íslenska sveitin hafnaði í 5. sæti í undanúrslitum sem fram fóru á fimmtudaginn. Svíar, Danir og Norðmenn höfnuðu í þremur efstu sætum forkeppninnar. Tvær þær fyrstnefndu höfðu nokkra sérstöðu.

Íslensku keppendurnir stóðu sig frábærlega í unglingakeppninni hér í gær. Stúlknalandsliðið varð Evrópumeistari með nokkrum yfirburðum og blandaða unglingaliðið hafnaði í þriðja sæti og hlaut bronsverðlaun.

Eftir keppni blandaðra liða í dag tekur við keppni í kvennaflokki þar sem íslenska landsliðið freistar þess að vinna og endurheimta Evrópumeistaratitilinn sem Ísland 2010 og 2012 mátti sjá naumlega á bak á EM fyrir tveimur árum þegar Evrópumótið fór fram í Reykjavík. Nóg um það að sinni. Fyrst er það keppni í blönduðum flokki.

Ísland er ekki með keppnislið í karlaflokki fullorðinna sem verður lokagrein dagsins.

Bronsliðið glaðbeitt á leið í verðlaunaafhendingu.
Bronsliðið glaðbeitt á leið í verðlaunaafhendingu. Ljósmynd/Steinunn
Blandað keppnislið, eldra, við lok dansæfinga sinna í undankeppni EM …
Blandað keppnislið, eldra, við lok dansæfinga sinna í undankeppni EM í fyrradag. Ljósmynd/Steinunn Anna
Blandað lið fullorðinna í undankeppni EM. Það keppir til úrslita …
Blandað lið fullorðinna í undankeppni EM. Það keppir til úrslita á mótinu. Ljósmynd/Steinunn Anna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert