Úrslitin réðust í dansinum

Eva Grímsdóttir, silfurverðlaunahafi í hópfimleikum kvenna á EM 2016.
Eva Grímsdóttir, silfurverðlaunahafi í hópfimleikum kvenna á EM 2016. mbl.is/Ívar

„Úrslitin eru mikil vonbrigði því við stefndum á gulllið en við bættum okkur talsvert frá undanúrslitunum. Það er jákvætt þótt ekki hafi dugað til sigurs,“ sagði Eva Grímsdóttir, landsliðskona í hópfimleikum, eftir að íslenska landsliðið hafnaði í öðru sæti á Evrópumeistaramótinu sem haldið er í Slóveníu. Þetta eru önnur silfurverðlaun Íslands í röð í kvennaflokki á EM.

„Markmiðið var að bæta sig frá keppninni á fimmtudaginn en Svíarnir gerðu það líka og meira en við og þar lá munurinn þegar upp var staðið,“ sagði Eva sem var vonsvikin eins og allir liðsmenn landsliðsins þar sem stefnt var á sigurinn.

„Munurinn á okkur og Svíum er sáralítill. Nú þurfum aðeins að jafna okkur áður en undirbúningur hefst að því að gera atlögu að gullinu á nýjan leik á EM eftir tvö ár.“

Eva segir að munurinn á íslenska og sænska liðinu hafi legið í dansatriðinu þar sem Svíar bætti sig mikið frá undankeppninni og fengu 22.650 meðan íslenska liðið hafi fengið sömu einkunn og í undankeppninni, 21.916. „Úrslitin réðust í dansinum.“

„Við erum glaðar með góðan dag. Þetta er gott silfur,“ sagði Eva að endingu en greinilegt var að hún og fleiri liðsmenn íslenska landsliðsins brostu í gegnum tárin að keppni lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert