Besti sem Ísland hefur átt

Snorri Einarsson
Snorri Einarsson mbl.is

Snorri Einarsson náði eftirtektarverðum árangri á skíðagöngumóti í Finnlandi á dögunum eins og Morgunblaðið greindi frá. Náði hann besta FIS-stigafjölda sem íslenskur skíðagöngumaður hefur náð í einu móti og vann sér inn keppnisrétt á HM í Finnlandi í vetur.

Morgunblaðið hafði samband við tvo skíðagöngukappa, þá Einar Ólafsson og Daníel Jakobsson, sem báðir hafa keppt á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd. Að margra mati hafa þeir náð bestum árangri íslenskra skíðagöngumanna eða þar til Snorri ákvað að keppa fyrir Ísland á þessu ári. Snorri á íslenskan föður og norska móður og hefur hingað til keppt undir merkjum Norðmanna.

Morgunblaðið bar undir þá Einar og Daníel hvar þeir telja Snorra standa á heimsvísu.

Besti árangurinn út frá stigum

„Hann er besti skíðagöngumaður sem Ísland hefur átt. Hann sýnir það til dæmis með þessum árangri í Finnlandi. Hann fékk um 39 FIS-punkta fyrir 2. sætið í Finnlandi en áður hafði hann náð enn betri árangri en þá keppti hann ekki fyrir Ísland heldur Noreg. Þessi árangur er sá besti sem Íslendingur hefur náð ef miðað er við FIS-stig í skíðagöngu. Áður fyrr var ekki eins mikið um FIS-mót fyrir utan heimsbikarmót. Ég tel samt sem áður að þessi árangur Snorra slái því við sem menn afrekuðu á árum áður,“ sagði Einar en hann segir að mót eins og mótin í Finnlandi á dögunum séu það næsta fyrir neðan heimsbikarmótin.

Í heimsbikarmótunum eru keppendur frá stóru landsliðunum og allir þeir bestu í heiminum. Á FIS-mótum eins og í Finnlandi mæta margir góðir sem ekki eru í stóru landsliðunum og reyna að ná sér í stig fyrir veturinn. Með því að bæta punktastöðuna eiga menn meiri möguleika á því að komast inn í landsliðin og inn á stórmót.

Einar er nefndarmaður hjá Skíðasambandinu og segist hafa rætt við Snorra í vikunni. „Ég spurði hvernig hann sæi veturinn fyrir sér. Hann segist vera í hörkuformi og telur sig geta bætt sig en er engu að síður hógvær og spar á yfirlýsingar,“ sagði Einar sem segist vera spenntur fyrir því að sjá Snorra keppa á HM í febrúar.

„Ef hann verður í toppformi, með góð skíði og allt gengur upp hjá honum þá ætti hann að geta náð á topp tíu. Ef hann nær að sýna sitt besta. Þegar menn eru komnir inn á topp tíu þá er stutt í verðlaunasæti því þá er ekki nema um 30 sekúndna munur frá fyrsta manni og til þess tíunda,“ sagði Einar Ólafsson í samtali við Morgunblaðið.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag