Skilur ekki 10 milljóna mun á HSÍ og KKÍ

Hannes Jónsson, formaður KKÍ.
Hannes Jónsson, formaður KKÍ.

„Ég er ekki ánægður nema KKÍ fái 30-35 milljónir úr Afrekssjóði á þessu ári,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, við mbl.is eftir að tilkynnt var að Afrekssjóður ÍSÍ myndi úthluta 18,5 milljónum til KKÍ af þeim 150 milljónum sem úthlutað var nú í hádeginu.

Sjá frétt mbl.is: ÍSÍ út­hlut­ar 250 millj­ón­um á ár­inu

„Í körfuboltanum höfum við vaxið mjög hratt á síðustu árum, og því fylgja ákveðnir vaxtaverkir og hlutirnir kosta miklu meira. Þar af leiðandi þurfum við meira fjármagn og þessar 18,5 milljónir eru okkur því góðar. En það á eftir að úthluta 100 milljónum í viðbót og við gerum ráð fyrir að fá stóran hluta af þeirri upphæð líka,“ sagði Hannes.

Um 100 milljónum til viðbótar verður úthlutað síðar á árinu eftir breyttum reglum sjóðsins, þar sem aukið framlag stjórnvalda verða tekin inn í reikninginn.

KKÍ fær annan hæsta styrkinn af þeim 150 milljónum sem úthlutað var, 18,5 milljónir. Hæsta styrkinn fær hins vegar Handknattleikssambandið, 28,5 milljónir. Hvað finnst Hannesi um muninn þar á milli?

„Ég vil sem minnst segja um hann, en ég í rauninni skil hann ekki. Handboltinn hefur verið á öllum þessum stórmótum á síðustu árum og áratugum, en það er ekki verið að veita úr Afrekssjóði vegna síðustu ára. Það á að vera að veita til næstu ára. Ég ber virðingu fyrir því sem handboltinn hefur gert, en það er samt mjög skrítið að enn eitt árið er handboltinn að fá miklu, miklu meira en til dæmis körfubolti. Og þar tala ég út frá árangri,“ sagði Hannes og áréttaði mál sitt enn frekar.

„Karlalandsliðin eru á svipuðum stað, bæði á lokamótum. Kvennalandsliðið í körfubolta er komið á hærri stall en kvennalandsliðið í handbolta. Við erum með yngri landslið á lokamótum alveg eins og handbolti, svo það er mjög sérstakt að horfa á þennan mun. Svo ég geri ráð fyrir því að við fáum bara enn stærri hlut þegar úthlutað verður úr nýjum Afrekssjóði,“ sagði Hannes S. Jónsson við mbl.is í dag.

mbl.is