Arna Stefanía afþakkaði boð frá Tyrklandi

Arna Stefanía Guðmundsdóttir á fleygiferð.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir á fleygiferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arna Stefanía Guðmundsdóttir, nýkrýndur Norðurlandameistari í 400 metra hlaupi innanhúss, þurfti að afþakka boð um að taka þátt í alþjóðlegu móti í Tyrklandi.

Í fréttatilkynningu frá Frjálsíþróttasambandinu kemur eftirfarandi fram:

Hlaupaprinsessan úr FH, Arna Stefanía Guðmundsdóttir, hefur sýnt miklar framfarir undanfarið. Arna Stefanía hljóp eins og margir muna undir EM-lágmarki á Reykjavík International Games í upphafi mánaðar.

Um liðna helgi hljóp hún aftur vel þegar hún sigraði í 400 m hlaupi á Nordenkampen (NM innanhúss) í Tampere í Finnlandi. Árangur Örnu Stefaníu er farinn að vekja athygli víða, þannig fékk hún fyrir nokkrum dögum boð um að taka þátt í sterku alþjóðlegu móti í Istanbul í Tyrklandi. Boðið sýndi að Arna Stefanía er komin í nýjan klassa þar sem boðið hljóðaði ekki aðeins upp á flug og uppihald heldur einnig ágætis umbun fyrir árangur. 

Arna Stefanía gat því miður ekki þegið boðið, en hún er nú að jafna sig eftir erfitt hlaup í Tampere og að keppast við að komast í gott stand fyrir EM í Belgrad. 

mbl.is