Fyrstur undir 21 sek.

Kolbeinn Höður Gunnarsson
Kolbeinn Höður Gunnarsson mbl.is/Árni Sæberg

Kolbeinn Höður Gunnarsson, spretthlaupari úr FH, varð á laugardagskvöldið fyrsti Íslendingurinn til að hlaupa 200 metra hlaup undir 21 sekúndu og gerði það á háskólamóti í Memphis í Tennessee-ríki í Bandaríkjunum.

Kolbeinn kom í mark á 20,96 sekúndum og fékk silfurverðlaun en Kolbeinn keppir fyrir Memphis-háskólann. Mótið var haldið hjá Rhodes-skólanum en um var að ræða fyrsta mótið utandyra hjá Kolbeini á árinu.

Íslandsmetið í greininni átti Jón Arnar Magnússon og var það 21,17 sekúndur. Setti tugþrautarmaðurinn metið í Reykjavík árið 1996. „Jú það var kominn tími til að einhver annar en Jón Arnar tugþrautarkappi fengi þetta met. Ég hef haft augastað á þessu meti en bjóst svo sem ekki við því að það næðist strax í fyrsta mótinu. Ég hef æft gríðarlega mikið í vetur,“ sagði Kolbeinn þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær.