Afturelding bikarmeistari í blaki karla

Leikmenn Aftureldingar fagna eftir sigurinn í Kjörísbikarnum í blaki í ...
Leikmenn Aftureldingar fagna eftir sigurinn í Kjörísbikarnum í blaki í dag. mbl.is/Ófeigur

Afturelding er bikarmeistari karla í blaki en liðið lagði Stjörnuna 3:2 í úrslitum Kjörísbikarkeppninnar í Laugardalshöll í dag. 

Þetta var ótrúlegur sigur hjá Aftureldingu, liðið var 24:18 undir í fyrstu hrinu og vann hana, síðan vinnur liðið mikinn baráttusigur í fjórðu hrinunni og loks í oddahrinunni breytir liðið stöðunni úr 12:9 í sigur. Mosfellingar sönnuðu að þetta er ekki búið fyrr en það er búið.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Hrina V (staðan er 2:2)

13:15 Sannarlega óvænt því Mosfellingar komu þrívegis þvílíkt til baka og náðu þannig að knýja fram sigur í þremur hrinum.

13:13 Þetta er eins jafnt og það getur orðið. Stjarnan var komin í 13:11 en Mosfellingar eru ekkert á þeim buxunum að gefast upp. Stjarnan tekur leikhlé.

10:7 Afturelding tekur leikhlé

8:6 Jafnt á flestum tölum nema hvað Afturelding komst í 3:5 og síðan á lokasprettinum áður en liðin skipta um vallarhelming komst Stjarnan tveimur stigum yfir. 

Mosfellingur reynir smass gegn hávörn Stjörnunnar.
Mosfellingur reynir smass gegn hávörn Stjörnunnar. mbl.is/Golli

Hrina IV (staðan er 2:1)

23:25 Dugnaður í Aftureldingarmönnum, sem börðust eins og ljón og gáfust aldrei upp. Vonandi verður oddahrinan jafnskemmtileg.

19:22 Stjarnan tekur sitt annað leikhlé og nú er að duga eða drepast fyrir leikmenn til að losna við oddahrinu

19:20 Eða hvað? Afturelding að koma til baka með flottum leik, hávörnin mjög sterk nú um stundir. Stjarnan tekur leikhlé.

17:15 Sígandi lukka er best og Stjarnan mjakast hægt og rólega að sigri í þessari hrinu og um leið þá í leiknum.

10:11 Stjarnan búin að ná þessu niður í eitt stig og þetta lofar allt góðu, boltinn gengur vallarhelminga á milli í nokkurn tíma og menn berjast út um allan völl.

4:7 Fjórða hrinan byrjar jafnt upp í 4:4 en þá komu þrjú stig í röð frá Aftureldingu.

Stjörnumenn unnu aðra og þriðju hrinu leiksins.
Stjörnumenn unnu aðra og þriðju hrinu leiksins. mbl.is/Golli

Hrina III (staðan er 1:1)

25:20 Nokkuð þægilegur sigur eftir að allt hafði verið í járnum framan af. Piotr Kempisty leikmaður Aftureldingar meiddur, var tæpur í baki fyrir leikinn og hann verður trúlega ekki meira með í dag.

18:14 Annað leikhlé Aftureldingar og spurning hvort það nái að slá Stjörnuna út af laginu.

15:12 Eftir að hava verið mjög jafnt og spennandi er Stjarnan nú komin með þriggja stiga forystu og Afturelding tekur leikhlé.

9:9 Allt í járnum, Stjarnan komst yfir í fyrsta sinn í hrinunni, 8:7, þannig að þetta stefnir í hörkurimmu.

6:6 Stjörnumenn að ná áttum eftir slaka byrjun í þessari hrinu.

0:4 Afturelding byrjar af krafti. 

Aftureldingarmenn fagna stigi.
Aftureldingarmenn fagna stigi. mbl.is/Golli

Hrina II (staðan er 1:0)

25:13 Stjarnan gerði engin mistök í lok þessarar hrinu líkt og í þeirri fyrstu. Öruggur sigur.

20:9 Leikhléið gekk ekki eftir og nú er bara spurning hvort Aftureldingu tekst að snú þessari hrinu sér í vil líkt og liðið gerði í fyrstu hrinu.

15:6 Afturelding tekur sitt annað leikhlé. Þetta lítur ekki vel út hjá Mosfellingum þessa stundina.

11:5 Afturelding tekur leikhlé enda gengur ekkert hjá liðinu núna, hávörn og móttaka hjá Stjörnunni gerir það að verkum að liðið getur sótt af krafti.

6:2 Stjarnan byrjar betur, en engu að síður leikur Afturelding vel og betur en lengst af í fyrstu hrinu. 

Hrina I: Fyrsta hrina átti að hefjast kl. 14:00 en hófst ekki fyrr en kl. 14:19 með því að Stjarnan hóf leik.

25:27 Stjarnan tekur annað leikhlé. Liðið virtist vera með þessa hrinu en leikmenn virtust fara á taugum og Mosfellingar gengu á lagið og hafa tekið forystu í leiknum.

24:23 Stjarnan tekur leikhlé enda Afturelding búin að breyta stöðunni úr 24:18 í 24:23, Antonio Burgal í uppgjöf.

18:12 Afturelding tekur sitt annað leikhlé, það gengur ekkert hjá liðinu núna á meðan Garðbæingar fara á kostum.

16:12 Afturelding tekur leikhlé. Stjarnan er að ná undirtökunum, komst í 14:11 og núna 16:12. Matthew Gibson uppspilari þeirra Garðbæinga spilar rosalega vel upp og er alltaf ógnandi.

8:9 Afturelding lagði samt ekki árar í bát og komst 9:8 yfir með flottum sóknum, mikilli baráttu og flottri hávörn.

6:3 Stjarnan jafnaði 2:2 en Afturelding komst í 2:3 áður en Garðbæingar tóku fjögur stig í röð, 6:3.

0:2 Mosfellingar vinna boltann og fá síðan sitt annað stig.

Stjarnan: Matthew Gibson, Michael Pelletier, Hannes Ingi Geirsson, Ólafur Finnbogi Ólafsson, Egill Þorri Arnarsson, Janis Novikovs, Róbert Karl Hlöðvarsson, Benedikt Baldur Tryggvason, Austris Bucovskis, Kristófer Björn Ólason Proppe, Kolbeinn Tumi Baldursson, Benedikt Rúnar Valtýsson.

UMFA: Reynir Árnason, Krzysiek Majewicz, Sebestian Sævarsson Meyer, Ingólfur Hilmar Guðjónsson, Geomar Orbon, Völundur Guðmundsson, Viktor Emile Gauvrit, Eduardo Berenguer Herrero, Antonio Burgal, Piort Kempisty, Alexander Stefánsson, Hilmar Berg Halldórsson.

Stjarnan lagði HK í undanúrslitum á föstudaginn og Afturelding hafði betur gegn Vestra.

Fyrir fram er ekki óeðlilegt að ætla Stjörnunni sigur, en Mosfellingar hafa reyndar sýnt í vetur að liðið getur átt frábæra leiki.

mbl.is