HK getur tryggt titilinn á laugardag

Hart barist í úrslitaleik Stjörnunnar og HK.
Hart barist í úrslitaleik Stjörnunnar og HK. mbl.is/Kristinn Magnússon

HK er komið í 2:0 í úrslitaeinvíginu við Stjörnuna um Íslandsmeistaratitil karla í blaki, en HK vann annan leik liðanna 3:1 í Fagralundi í dag.

Gestirnir úr Garðabænum byrjuðu leikinn betur og komust yfir í stöðunni 4:3 í fyrstu hrinu. Þó að leikmenn HK hafi reynt að svara fyrir sig dugði það ekki til og fór svo að Stjarnan vann fyrstu hrinu með átta stiga mun, 25:17.

Heimamenn tóku hins vegar við sér í annarri hrinu sem var æsispennandi. Liðin fylgdust að þar til staðan var jöfn í 14;14 en þá gáfu heimamenn heldur betur í og fengu 11 stig á meðan Stjarnan fékk aðeins eitt. Hrinunni lauk því með sigri heimamanna, 25:15, en mikil leikgleði ríkti á vallarhelmingi þeirra frá upphafi hrinunnar og hélst það svo út leikinn.

Það voru því heimamenn sem byrjuðu þriðju hrinu betur og náðu þeir fljótt sjö stiga forskoti, 11:4. Það bil virtist of stórt fyrir Stjörnumenn til að vinna upp og unnu heimamenn þriðju hrinu, 25:21, og þar með komnir með forskot í leiknum, 2:1.

Í fjórðu hrinu snerist leikurinn við á ný og byrjuðu Stjörnumenn betur. Þegar staðan var 4:0 gestunum í vil tók þjálfari HK leikhlé sem skilaði sínu en næstu fimm stig féllu með liði HK og heimamenn þá komnir í forystu, 5:4. Frá því varð leikurinn jafn á ný og fylgdust liðin að þar til staðan var 16:16.

Líkt og í annarri hrinu gáfu heimamenn þá í og náðu fjögurra stiga forskoti, 21:17, en gestirnir neituðu að gefast upp og sóttu næstu þrjú stig, staðan orðin 21:20. Dæmið snerist þá við á ný og fékk lið HK næstu þrjú stig, staðan orðin 24:20 og HK vantaði einungis eitt stig til viðbótar til að vinna hrinuna og leikinn. Næstu þrjú stig féllu hins vegar með Stjörnumönnum eftir góðar sóknir og stig beint úr uppgjöf frá Benedikt Valtýssyni og staðan orðin 24:23.

Eftir æsispennandi skorpu var það Kjartan Fannar Grétarsson, miðjumaður hjá HK, sem að lokum sló boltann í gólf Stjörnumanna og leikmenn HK unnu því hrinuna 25:23 og leikinn 3:1.

HK er þar með komið með tveggja leikja forystu í úrslitaeinvíginu en vinna þarf þrjá leiki til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Næsti leikur liðanna fer fram í Ásgarði klukkan 14.00 næstkomandi laugardag, 22. apríl.

Stigahæstur í leiknum var Theódór Óskar Þorvaldsson, HK, með 24 stig. Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Michael Pelletier með 13 stig. 

mbl.is