Gunnar í aðalbardaga í Glasgow í júlí

Gunnar Nelson mun berjast í Glasgow 16. júlí.
Gunnar Nelson mun berjast í Glasgow 16. júlí. Árni Torfason

Bardagamaðurinn Gunnar Nelson mun berjast gegn Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio í næsta bardaga sínum sem verður í Glasgow í Skotlandi 16. júlí. Verður bardaginn aðalbardagi kvöldsins. Þar með er ljóst að Gunnar mun fá bardaga í sumar, en óljóst var hvort af slíku yrði þar sem flestir topp bardagamenn í þyngdarflokki hans eru annað hvort komnir með bardaga eða meiddir.

Ponzinibbio er í 13. sæti á styrkleikalista UFC í veltivigtinni, en það er þyngdarflokkur Gunnars. Hann hefur unnið síðustu fjóra bardaga sína og samtals 6 sigra og 2 töp síðan hann byrjaði að berjast í UFC. 

Þar sem bardaginn er aðalbardagi kvöldsins er hann fimm lotur í stað þriggja venjulega. Þetta er í annað skiptið sem Gunnar fær aðalbardaga, en áður mætti hann Rick Story í Stokkhólmi. Þar tapaði Gunnar eftir dómaraákvörðun. Fyrr í ár átti Gunnar að mæta Kóreubúanum Dong Hyun Kim í aðalbardaganum í Belfast, en vegna meiðsla þurfti Gunnar að draga sig frá keppni.

mbl.is