McGregor samþykkir bardaga gegn Mayweather

Floyd Mayweather og Conor McGregor.
Floyd Mayweather og Conor McGregor. AFP

Bardagakappinn Conor McGregor hefur náð samkomulagi við UFC um hugsanlegan bardaga sinn við hnefaleikakappann Floyd Mayweather.

Dana White, forseti UFC, hefur staðfest þetta og segist jafnframt ætla að vinna í því að fá Mayweather til þess að samþykkja að taka þátt, en mikil eftirvænting ríkir í bardagaheiminum yfir mögulegum bardaga þeirra.

McGregor tjáði sig í kjölfarið og sagðist vera mjög ánægður með að samningurinn væri í höfn. Barist yrði í hnefaleikum en ekki í MMA.

McGregor hefur aldrei barist sem atvinnumaður í hnefaleikum, en hann er vinsælasti maðurinn í sögu UFC, þar sem keppt er í blönduðum bardagalistum. Mayweather hefur að sama skapi barist 49 sinnum sem atvinnumaður í hnefaleikum og unnið alla bardaga sína.

mbl.is