Vildi gera mömmu stolta

Andreas Stefansson með bandýkylfuna í leik með íslenska landsliðinu.
Andreas Stefansson með bandýkylfuna í leik með íslenska landsliðinu.

Andreas Stefansson er líklega ekki nafn sem að margir Íslendingar kannast við. Þó stendur hann ansi framarlega í sinni íþrótt og fór fyrir íslenska landsliðinu á fyrsta stórmóti þess í greininni, í fyrravetur.

Andreas, sem á íslenska móður en sænskan föður, var svo valinn efnilegasti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar í vetur, varð þriðji markahæstur í deildinni með 50 mörk, og valinn til að spila í sérstökum stjörnuleik 27. maí.

Íþróttin sem Andreas spilar er innibandý (e. floorball) og er lítt þekkt hér á landi. Hún er hins vegar nokkuð vinsæl í Svíþjóð og þar er sterkasta félagsliðadeild heims, en einnig eru sterkar deildir í Finnlandi, Sviss og Tékklandi. Andreas, sem er 23 ára gamall, hóf frekar seint miðað við aðra að æfa íþróttina en stimplaði sig rækilega inn í vetur með liði sínu AIK:

„Það gekk ansi vel. Ég gerði það sem ég ætlaði mér og skoraði 50 mörk. Ég er markaskorari og er nokkuð ánægður með tímabilið, en ég hlakka líka bara til næsta tímabils og ætla mér að skora enn fleiri mörk,“ sagði Andreas við Morgunblaðið.

Hlógu þegar ég sagðist ætla að skora 50 mörk

„Menn bjuggust við því að ég myndi bregðast. Aðrir leikmenn, þjálfarar og blaðamenn hlógu bara þegar ég sagðist ætla að skora 50 mörk, og óskuðu mér góðs gengis. Þeir töldu mig ekki geta gert það svo það var mjög ljúft að geta afsannað það sem þeir sögðu. Ég veit samt að ég hef ennþá meira fram að færa en ég sýndi á þessari leiktíð,“ sagði Andreas.

Sjá  viðtalið við Andreas í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.