Eygló komin með sitt annað gull

Eygló Ósk Gústafsdóttir efst á verðlaunapalli í gær.
Eygló Ósk Gústafsdóttir efst á verðlaunapalli í gær. Ljósmynd/ÍSÍ

Eygló Ósk Gústafsdóttir vann önnur gullverðlaun sín á Smáþjóðaleikunum í San Marínó í dag þegar hún sigraði í 100 metra baksundi.

Tími Eyglóar var 1:01,67 mínútur, sem er um einni og hálfri sekúndu frá Íslandsmeti hennar sem staðið hefur í tæp tvö ár. Eygló fékk einnig gull í 200 metra baksundi í gær.

Þá vann Davíð Hildiberg Aðalsteinsson til bronsverðlauna í 100 metra baksundi karla, en tími hans var 57,50 sekúndur. Kristinn Þórarinsson varð sjötti á 58,56 sekúndum. Íslandsmetið á Örn Arnarson, 54,75 sekúndur, sem staðið hefur frá árinu 2001.

Í 400 metra skriðsundi hafnaði Sunneva Dögg Friðriksdóttir í fimmta sæti á tímanum 4:27,66 mínútum, en á eftir henni kom svo Bryndís Bolladóttir á 4:30,88 mínútum. í karlaflokki hafnaði Þröstur Bjarnason í 5. sæti á tímanum 4:08,00 mínútum og sjöundi varð Hafþór Jón Sigurðsson á 4:10,79 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert