Arnar vann silfur á EM

Arnar Bragason er hér á verðlaunapalli í 2. sæti.
Arnar Bragason er hér á verðlaunapalli í 2. sæti. Ljósmynd/Taekwondo-samband Íslands

Arnar Bragason vann til silfurverðlauna á Evrópumeistaramóti 35 ára og eldri í taekwondo, en keppt var í Lúxemborg um helgina. Arnar vann bardagana í undanrásum og undanúrslitum örugglega og barðist svo til úrslita við hinn geysisterka Ronald Folson frá Hollandi, en þurfti að lúta í lægra haldi eftir hörkuviðureign.

Þetta eru önnur verðlaunin sem Arnar vinnur til á alþjóðlegum stórmótum á árinu, en hann vann til gullverðlauna á US Open í febrúar. Arnar er yfirþjálfari hjá taekwondodeildum ÍR og Aftureldingar þar sem hann þjálfar bardagakappa framtíðarinnar.

Samhliða Evrópumeistaramótinu fór einnig fram Lúxemborg Open sem er sterkt mót sem gefur stig á heimslistann í taekwondo. Á því móti kepptu einnig frá Íslandi Meisam Rafiei og Kristín Björg Hrólfsdóttir.

Meisam stóð sig mjög vel og vann til bronsverðlauna á mótinu, en missti naumlega af keppni í úrslitabardaganum með því að missa forystuna í undanúrslitum á síðustu sekúndu bardagans. Þetta var síðasta mótið í undirbúningi Meisam fyrir heimsmeistaramótið sem fer fram í Suður-Kóreu eftir tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert