Heiður að spila með þeim

Sif Atladóttir
Sif Atladóttir mbl.is/Golli

Sif Atladóttir stóð í tvö ár utan landsliðsins eftir að hún varð ólétt að dóttur sinni síðla árs 2014. Hún hafði verið algjör lykilmaður í vörninni en þurfti svo að vinna sér aftur sæti þar í baráttu við miðvarðapar sem hélt markinu hreinu leik eftir leik. Það tókst og Sif verður að öllum líkindum í byrjunarliði Íslands gegn Frakklandi annað kvöld í fyrsta leik liðsins á EM í Hollandi, sem jafnframt verður þriðja stórmót þessarar 32 ára gömlu knattspyrnukonu.

Glódís Perla Viggósdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir léku í miðri vörn Íslands mestalla undankeppni EM, og skelltu hreinlega í lás. Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari vildi hins vegar gjarnan bæta Sif í byrjunarliðið, og það átti sinn þátt í því að Ísland leggur upp með þriggja miðvarða leikkerfi á morgun, þar sem Sif verður sjálfsagt í miðri vörninni á milli Glódísar og Önnu:

„Það er ótrúlegur heiður fyrir mig, að fá að spila með þessum stelpum. Þeirra afrek í undankeppninni var frábært og það er geggjað að fá að vera með þeim,“ segir Sif, en Morgunblaðið ræddi við hana á hóteli landsliðsins í Ermelo í gær.

„Þær fengu ekki á sig mark í undankeppninni, fyrr en í lokaleiknum þegar liðið var öruggt á EM. Þær voru búnar að vera brjálæðislega góðar og engin ástæða til að skipta þeim út. Það var geggjað að fylgjast með þeim, komast inn í hópinn aftur og geta svo fylgst með þeim af hliðarlínunni hreinlega blómstra. Þegar ég var þarna með Sólveigu dóttur mína, nokkurra vikna gamla, hugsaði ég bara með mér „vá, þetta lið“. Þarna byrjaði maður strax að sjá þessa þróun sem hefur verið í gangi. Ég vildi vera hluti af þessu, og það var stefnan alveg frá því að ég varð ólétt. Ég vissi að þær kæmust á EM og ég ætlaði að vera með,“ segir Sif.

Sjá allt viðtalið við Sif í íþrótta­blaði Morg­un­blaðsins