Farah mistókst að jafna met Bolt

Muktar Edris fagnar sigri, en Mo Farah getur ekki leynt …
Muktar Edris fagnar sigri, en Mo Farah getur ekki leynt vonbrigðum síum þar fyrir aftan. AFP

Eþíópski hlauparinn Muktar Edris tryggði sér heimsmeistaratitilinn í 5000 metra hlaupi karla sem fram fór í London í kvöld. Mo Farah varð að láta sér annað sæti að góðu og Bandaríkjamaðurinn Paul Kipkemoi Chelimo varð svo í þriðja sæti.

Edris hljóp á tímanum 13:32,79 sekúndum, en góður lokasprettur Farah dugði ekki til og hann kom í mark á 13:33,22 sekúndum. Tími Chelimo sem tryggði honum bronsverðlaun var svo 13:33,30 sekúndur.

Farah átti kost á því að jafna mat jamaíska spretthlauparans yfir flest gull á heimsmeistaramóti með gullverðlaunum í hlaupinu, en Bolt trónir á toppi listans með sjö gullverðlaun og Farah kemur þar á eftir með sex gullverðlaun.

Farah hefur þrívegis orðið heimsmeistari í 5000 metra hlaupi og sömuleiðis þrisvar sinnum í 10.000 metra hlaupi. Bolt getur nælt sér í áttundu gullverðlaun sín á heimsmeistaramóti beri sveit Jamaíku sigur úr býtum í 4x100 metra hlaupi síðar í kvöld.

Þetta var síðasta hlaup Farah á glæsilegum hlaupaferli hans, en hann hefur ákveðið að láta staðar numið eftir langan og sigursælan feril.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert