Farah mistókst að jafna met Bolt

Muktar Edris fagnar sigri, en Mo Farah getur ekki leynt ...
Muktar Edris fagnar sigri, en Mo Farah getur ekki leynt vonbrigðum síum þar fyrir aftan. AFP

Eþíópski hlauparinn Muktar Edris tryggði sér heimsmeistaratitilinn í 5000 metra hlaupi karla sem fram fór í London í kvöld. Mo Farah varð að láta sér annað sæti að góðu og Bandaríkjamaðurinn Paul Kipkemoi Chelimo varð svo í þriðja sæti.

Edris hljóp á tímanum 13:32,79 sekúndum, en góður lokasprettur Farah dugði ekki til og hann kom í mark á 13:33,22 sekúndum. Tími Chelimo sem tryggði honum bronsverðlaun var svo 13:33,30 sekúndur.

Farah átti kost á því að jafna mat jamaíska spretthlauparans yfir flest gull á heimsmeistaramóti með gullverðlaunum í hlaupinu, en Bolt trónir á toppi listans með sjö gullverðlaun og Farah kemur þar á eftir með sex gullverðlaun.

Farah hefur þrívegis orðið heimsmeistari í 5000 metra hlaupi og sömuleiðis þrisvar sinnum í 10.000 metra hlaupi. Bolt getur nælt sér í áttundu gullverðlaun sín á heimsmeistaramóti beri sveit Jamaíku sigur úr býtum í 4x100 metra hlaupi síðar í kvöld.

Þetta var síðasta hlaup Farah á glæsilegum hlaupaferli hans, en hann hefur ákveðið að láta staðar numið eftir langan og sigursælan feril.

mbl.is