Gunnar berst ekki meira á árinu

Gunnar Nelson tekur sér frí frá keppni það sem eftir …
Gunnar Nelson tekur sér frí frá keppni það sem eftir er af árinu til að hvíla höfuðið en kemur sterkur til baka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gunnar Nelson mun ekki berjast meira á árinu en hann tapaði í bardaga á móti Santiago Ponzinibbio í aðalbardaga UFC-kvöldsins í Glasgow 16. júlí síðastliðinn. Gunnar var rotaður í fyrstu lotu bardagans og settur í 45 daga keppnisbann.

Í samtali við mbl.is um helgina sagði Gunnar að hann ætlaði að taka sér frí út árið til að hvíla höfuðið. „Það er mikilvægt að hvíla hausinn eftir svona atvik,“ sagði Gunnar. „Ég geri það eins og maður en held síðan áfram.“

Spurður stöðu kærunnar vegna ítrekaðra augnpota Ponzinibbio í bardaganum í Glasgow, sem höfðu áhrif á sýn Gunnars, segir hann ekkert nýtt að frétta frá UFC, sem sé jákvætt. „Það þýðir að þeir eru að íhuga þetta. Hvaða skilaboð þeir ætla að senda út,“ segir Gunnar.

mbl.is