Fótboltinn leið að betra lífi

Gilberto Silva.
Gilberto Silva. AFP

Brasilíumaðurinn Gilberto Silva snýr aftur á heimsmeistaramót í knattspyrnu á næsta ári. Sigurvegarinn frá árinu 2002 mun þó ekki snúa aftur á mótið sem flestir knattspyrnuunnendur munu fylgjast með í Rússlandi, heldur mun hann taka þátt í heimsmeistaramóti götubarna.

Silva, sem er 40 ára og lék á árum áður með Arsenal, viðurkennir að þrátt fyrir að hann hafi alist upp við fátækt hafi hann grátið þegar hann heyrði sögu götubarns frá Indlandi. Hann tók þátt í ráðstefnu í Mosvku fyrr á árinu en hann er sendiherra samtakanna „Street Child“.

Samtökin sjá um skipulagningu mótsins en gert er ráð fyrir því að það fari fram í maí, áður en sjálft heimsmeistramótið fer fram. Leikið er í sjö manna liðum en tólf strákalið og jafnmörg stelpulið taka þátt. Þeirra á meðal tekur lið frá Úganda þátt í fyrsta skipti.

Peter Fahy, fyrrverandi lögregluþjónn í Manchester og núverandi framkvæmdastjóri samtaka sem hjálpa börnum að koma lífi sínu á réttan kjöl, segir að þetta sé tækifæri fyrir stúlkurnar frá Úganda til að benda á vandamál í þeirra samfélagi.

„Við notum þennan vettvang til að benda á að stelpur eru þvingaðar til að kvænast ungar. Þær eru seldar til Kampala [höfuðborg Úganda] til að sinna þjónustustörfum og eru síðan kynferðislega misnotaðar,“ sagði Fahy við AFP-fréttastofuna.

Heimsmeistaramót götubarna fer fram í maí.
Heimsmeistaramót götubarna fer fram í maí. AFP

Hann segir að vandamálið sé landlægt. Kunningjar eða ættingjar sem búi í Kampala komi til fólks sem býr í þorpum, taki stelpur með sér til höfuðborgarinnar og lofi þeim bjartri framtíð.

„Þegar allt kemur til alls hljóta þær aðra meðferð en önnur börn í fjölskyldunni. Þær eru látnar vinna frá því snemma á morgnana og þangað til síðla kvölds. Það verður til þess að þær missa af tækifæri til að hljóta menntun og ofan á þetta allt saman verða þær fyrir misnotkun,“ sagði Fahy.

Fyrrverandi lögreglumaðurinn hefur skipulagt ferðir 13 lögregluteyma til Úganda, Eþíópíu og Malaví þar sem þarlendum lögregluyfirvöldum verður kennt hvernig á að aðstoða götubörn.

Ekkert barn á heima á götunni

„Ef þær hreyfa andmælum þá verður þeim hent á götuna. Stundum lýgur fjölskyldan einnig upp á stúlkurnar og segir að þær hafi stolið frá henni. Stúlkurnar skammast sín og þeim líður eins og þær geti ekki farið aftur til fjölskyldunnar sem þær voru teknar frá,“ sagði Fahy.

„Við vinnum með barninu og fjölskyldunni, sem tekur á móti þeim aftur til að þær getið haldið áfram skólagöngu og eðlilegu lífi.“

John Wroe, framkvæmdastjóri heimsmeistaramóts götubarna, segir að markmið mótsins sé einfalt: Ekkert barn eigi að lifa á götunni.

„Í Kanada er tíu ára herferð í gangi sem á að binda enda á það að fólk búi á götunni. Kanadamenn munu nota HM sem vettvang til að láta herferðina ná athygli fólks þar í landi,“ sagði Wroe.

Frá Kampala í Úganda.
Frá Kampala í Úganda. AFP

Fahy þrýsti á ríkisstjórn Úganda að kaupa landsvæði þar sem hann gæti byggt upp móttöku fyrir stúlkurnar. Hann veit hversu mikilvægt mótið í Rússlandi getur verið fyrir stelpurnar og baráttu þeirra.

„Við munum nota tækifærið og nýta allar stelpurnar sem sendifulltrúa þar sem þær fara aftur til Úganda og tala um réttindi stúlkna,“ sagði Fahy.

Wroe hefur talað um að Rússar hafi verið mjög samvinnuþýðir í undirbúningi mótsins. Hann bendir á sögu af suður-afrískum strák, Andille, sem bjó undir tré en dæmi eins og hann geri vinnuna þess virði.

„Hann sagðist vera ekkert í augum annarra þegar hann væri götubarn en hann væri manneskja þegar hann spilaði fótbolta,“ sagði Wroe.

„Núna starfar hann sem kaffibarþjónn í Durban og yfirmaður hans segir að hann sé áreiðanlegasti starfsmaðurinn þar. Hann mætir fyrstu til vinnu og fer síðastur heim. Hann vinnur sex og hálfan dag en í frítíma sínum býr hann til heimili fyrir móður sína.“

mbl.is