Capriotti þjálfar áfram landsliðin

Daniele Capriotti, landsliðsþjálfari kvenna í blaki.
Daniele Capriotti, landsliðsþjálfari kvenna í blaki. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Blaksamband Íslands hefur framlengt samning sinn við Ítalann Daniele Capriotti sem yfirþjálfara fyrir kvennalandsliðin í blaki. 

Capriotti var ráðinn landsliðsþjálfari kvennalandsliðsins vorið 2014. Frá þeim tíma hefur hans vinna einnig snúist um uppbyggingu allra landsliða hjá konunum en eins og vitað er hafa verið sett á laggirnar ný landslið fyrir yngsta aldurshópinn. 

„Landsliðsnefndin hefur verið í samningaviðræðum við Daniele frá því í sumar og náðust samningar núna í byrjun september. Mun Daniele áfram sinna því starfi sem hann hefur unnið undanfarin ár en mikil ánægja er með störf hans. Frábær árangur íslenska kvennalandsliðsins á þessu ári ber merki þjálfarans þar sem stúlkurnar unnu EM SCD í Lúxemborg og ekki var síðra afrek að komast í 2. umferð undankeppni HM þar sem liðið spilaði við sterkustu þjóðir Evrópu. 

Framundan eru U17 og U19 ára verkefni í NEVZA mótum. Auk þess hefur U17 ára lið stúlkna verið skráð í undankeppni EM en sú keppni hefst í janúar 2018,“ segir m.a. í tilkynningu á heimasíðu Blaksambands Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert