Blika vantar tvo til þrjá velli

Eysteinn Pétur Lárusson er framkvæmdastjóri Breiðabliks.
Eysteinn Pétur Lárusson er framkvæmdastjóri Breiðabliks. Ljósmynd/Aðsent

„Við fögnum þessari skýrslu. Hún staðfestir það sem við höfum verið að tala um. Það er skortur á aðstöðu fyrir Breiðablik,“ segir Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, í samtali við mbl.is. Hann segir að fyrir liggi að fleiri velli vanti til að anna þeim fjölda sem hjá Breiðablik iðkar knattspyrnu. Það eru um 1.600 manns.

Í greinargerð um nýtingu íþróttamannvirkja Breiðabliks, sem unnin var fyrir Kópavogsbæ er meðal ann­ars lagt til að yngri flokk­ar fé­lags­ins æfi oft­ar á par­keti. Einnig er lagt til að æfingatímar á morgnanna og kvöldin verði nýttir betur og að skoðaðir verði möguleikar á að samnýta Kórinn með HK.

Krafan er gervigras

Spurður hvernig honum hugnist sú hugmynd að senda yngri börnin á parket í auknum mæli svarar Eysteinn því til að bærinn geti ekki gert ríkari kröfur á eitt félag umfram annað um að æft sé á öðru undirlagi. „Krafan í nútímanum er að æft sé á gervigrasi. Og það er það, meðal annars, sem hefur verið að skila þessum árangri sem við sjáum hjá landsliðunum okkar.“ Hann bendir í því samhengi á af fjórir af þeim landsliðsmönnum sem voru á vellinum þegar flautað var til leiksloka í landsleik helgarinnar hafi á einum tímapunkti eða öðrum æft á gervigrasi hjá Blikum. Það eru Gylfi Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason, Sverrir Ingi Ingason og Jóhann Berg Guðmundsson. „Við erum stolt af því að níu af sextán mörkum Íslands í undankeppninni komu frá leikmönnum sem hafa verið í unglingastarfi Breiðabliks,“ segir Eysteinn.

Hann segir að í ljósi fjölgunar íbúa í Kópavogi og þess árangurs sem a-landslið karla og kvenna hafi náð á undanförnum árum sé ekki útilit fyrir annað en að iðkendum fjölgi enn frekar.

Fagrilundur illa nothæfur

Í greinargerðinni, er meðal annars lagt til að æfingatímar á morgnanna verði betur nýttir. Í umfjöllun um Fífuna, er sagt að stundum séu tímar frá 6:15 til 7:30 nýttir undir tækniæfingar fyrir yngri flokka.

Eysteinn segir það stangast á við lýðheilsusjónarmið að láta börn mæta á æfingar klukkan sex á morgnanna. Þau verði að fá fullan svefn. Þess utan sé erfitt að fá þjálfara til að kenna á þeim tíma sólarhringsins. „Við þurfum að vera samkeppnishæf,“ segir hann.

Eysteinn segir að þau viðmið sem sett eru fram í greinargerðinni kalli á tvo til þrjá upphitaða gervigrasvelli til viðbótar á starfssvæði Breiðabliks. „Skýrslan staðfestir að Fagrilundur er illa nothæfur – og illa farinn. Hann er oft alveg úti frá nóvember fram í apríl,“ segir Eysteinn en í greinargerðinni er lagt til að nýtt gervigras verði lagt á völlinn og að það verði upphitað.

Leigja af ÍR

Fífan er mjög vel nýtt að mati Eysteins, eins og raunar má sjá í greinargerðinni, en hann bendir á að bærinn leigi út Fífuna frá klukkan níu og tíu á kvöldin. Ef Breiðablik eigi að geta nýtt Fífuna betur þurfi bærinn að leigja færri tíma út.

Hann bendir á að Breiðablik leigi nokkur svæði að staðaldri til að mæta þeim skorti á aðstöðu sem félagið glími við. Félagið hafi leigt tíma hjá ÍR og öðrum félögum, auk aðstöðu í Sporthúsinu.

Knattspyrnuhúsið Kórinn.
Knattspyrnuhúsið Kórinn. Ljósmynd/KSÍ

Kórinn líka fullur

Í greinargerðinni er lagt til að Breiðablik og HK samnýti Kórinn. Eysteinn segir að samstarf félaganna tveggja hafi verið mjög gott, svo sem í tengslum við tónleikahald og aðra viðburði. En hann telji að Kórinn sé líka fullnýttur.  

Svar frá forsvarsmönnum HK staðfestir það. Í því segir að iðkendum HK hafi fjölgað gífurlega undanfarin ár. HK fullnýti þá tíma sem félagið fái úthlutað og að þeir tímar dugi ekki til. „Félagið hefur ítrekað óskað eftir fleiri úthlutuðum tímum í knatthúsinu þar sem gervigrasið fyrir utan Kórinn er hvorki búið lýsingu né hita, og nýtist því ekki til æfinga nema frá apríl til september. HK sér ekki grundvöll fyrir samnýtingu Kópavogsfélaganna á aðstöðu enda eru ekki neinir tímar á lausu í Kórnum auk þess sem það gengur gegn markmiði bæjaryfirvalda á skilgreindum félags- og þjónustusvæðum í knattspyrnu,“ segir í svari til mbl.is.

Góð aðstaða er lykillinn

Eysteinn bendir á að Kópavogur hafi verið í fararbroddi uppbyggingar á aðstöðu til knattspyrnuiðkunar en aðstaðan hafi ekki haldist í hendur við fjölgun hjá félögunum. „Við viljum æfa við bestu aðstæður og það er lykillinn að þeim árangri sem við höfum verið að sýna, svo eftir er tekið, langt út fyrir landssteinanna.“

Hann segir að aðstaðan sé frábær en að hún sé hins vegar sprungin. „Það vantar upphitað gervigras og skýrslan staðfestir það.“ Hann fagnar því ef endurnýja á gervigrasið í Fagralundi. Það sé góð byrjun. Hann segir að stjórn félagsins sé að fara yfir skýrsluna og í framhaldinu verði fundað með foreldrum. „Í framhaldinu verður farið á fullt í að vinna að bættri aðstöðu.“

mbl.is