Júlían og Viktor lyfta á HM

Júlían J.K. Jóhannsson, til vinstri, og Viktor Samúelsson, til hægri, ...
Júlían J.K. Jóhannsson, til vinstri, og Viktor Samúelsson, til hægri, verða í eldlínunni í Tékklandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir íslenskir keppendur verða á meðal þátttakenda á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fer í Pilsen í Tékklandi. Keppni hófst í gær en Íslendingarnir keppa á föstudag og laugardag.

Viktor Samúelsson ríður á vaðið á föstudag í -120 kg flokki, en þar er útlit fyrir harða baráttu um verðlaunasæti. Þetta er í annað sinn sem hann keppir á HM í opnum flokki, en á síðasta ári hafnaði hann í sjötta sæti með 1.000 kg í samanlögðum árangri.

Júlían J.K. Jóhannsson keppir svo á laugardag í +120 kg flokki. Hann mun gera tilraun til að verja gullið í réttstöðulyftu frá því í fyrra þegar hann setti nýtt heimsmet unglinga, 380 kg. Hann lyfti samanlagt 1.070 kg sem skilaði honum fimmta sæti.

mbl.is