Ólafía fyrst kylfinga

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir með verðlaunagripinn.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir með verðlaunagripinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afrekskylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sjötta konan frá upphafi sem kjörin er íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna, á þeim 62 árum sem kjörið hefur farið fram frá 1956.

Þetta er jafnframt í annað sinn á þremur árum sem kona verður fyrir valinu en sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir hreppti sæmdarheitið árið 2015.

Margrét Lára Viðarsdóttir knattspyrnukona var kjörin árið 2007, Vala Flosadóttir stangarstökkvari árið 2000, Ragnheiður Runólfsdóttir sundkona árið 1991 og Sigríður Sigurðardóttir handknattleikskona árið 1964.

Þá er þetta þriðja árið í röð sem þrjár konur eru í hópi fimm efstu íþróttamanna í kjörinu en Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona hafnaði í fjórða sæti og Sara Björk Gunnarsdóttir knattspyrnukona í fimmta sæti. Þannig var niðurstaðan einnig árin 2016 og 2015, en áður gerðist það í kjörinu árin 2009, 2004 og 2000.

Þetta er ennfremur fjórða árið í röð sem fimm konur eru í tíu efstu sætum kjörsins en það gerðist í fyrsta skipti árið 2014 og hefur haldist þannig síðan.

Besta kjör kvenna hvað efstu sætin varðar var þó árið 2000. Þá var Vala Flosadóttir íþróttamaður ársins, Guðrún Arnardóttir hafnaði í þriðja sæti og Kristín Rós Hákonardóttir í fjórða sæti.

Ólafía er fyrsti kylfingurinn í sögu kjörsins sem hlýtur nafnbótina íþróttamaður ársins. Hún hafði áður jafnað besta árangur kylfinga þegar hún hafnaði í þriðja sætinu árið 2016. Sigurður Pétursson varð þriðji í kjörinu árið 1985 en fram að því hafði Ragnar Ólafsson náð bestum árangri kylfinga þegar hann endaði í sjötta sætinu árið 1981.

Sjá allt um kjör íþróttamann ársins í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert