Serena og Federer íþróttafólk ársins 2017

Serena Williams er afskaplega sigursæl.
Serena Williams er afskaplega sigursæl. AFP

Tennisstjörnunar Serena Williams og Roger Federer urðu hlutskörpust í kjöri Alþjóðasamtaka íþróttafréttamanna um íþróttafólk ársins 2017 sem tilkynnt var um í dag.

Serena er að vinna þetta kjör í fimmta sinn, en árið var þó nokkuð óvenjulegt fyrir hana. Hún var með barni þegar hún vann Opna ástralska meistaramótið í janúar og fæddi svo dóttur í september síðastliðnum.

Serena hlaut 13,99% atkvæða og var hársbreidd fyrir ofan ungversku sundkonuna Hosszu Katinka sem hlaut 13,56%. Í þriðja sæti var svo spretthlauparinn Felix Alysson með 10,64%.

Federer er að vinna þetta kjör í fjórða sinn og nálgaðist met Usain Bolt sem var kjörinn sex sinnum. Federer vann tvö risamót á árinu, en hann vann síðast þetta kjör fyrir áratug.

Federer hlaut 19,94% atkvæða en á eftir honum komu knattspyrnumennirnir Cristiano Ronaldo með 16,94% og Lionel Messi með 11,39%.

Roger Federer.
Roger Federer. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert