Brady gefur ekkert eftir

Tom Brady.
Tom Brady. AFP

Úrslitakeppnin í NFL-ruðningsdeildinni hófst um síðustu helgi, en eins og bent hefur verið á í þessum pistlum undanfarin ár er lítil ástæða til að fylgjast grannt með fyrstu umferðinni þar sem fjögur bestu liðin einfaldlega sitja hjá og bíða í afslöppun eftir að slá sigurvegara fyrstu umferðarinnar út á heimavelli á annarri keppnishelginni.

Í Ameríkudeildinni kom fljótlega í ljós að New England Patriots (að venju) og Pittsburgh Steelers voru bestu liðin. Þau mættust í frábærum leik rétt fyrir jólin þar sem tvenn slæm mistök Steelers á lokamínútunni gáfu New England sigur, 27:24. Með þeim sigri náði Nýja England heimavallayfirburðunum svokölluðu í Ameríkudeildinni. Þetta ætti að gefa Patriots besta tækifærið í deildinni til að komast í Ofurskálarúrslitaleikinn í Minneapolis í upphafi febrúar.

Í undanúrslitum Ameríkudeildar fær New England lið Tennessee Titans í heimsókn og í hinum leiknum sækir Jacksonville Jaguars lið Pittsburgh Steelers heim. Bæði heimaliðin ættu hér að rúlla auðveldlega í úrslitaleik Ameríkudeildar.

Tvísýnt í landsdeildinni

Í landsdeildinni skáru fjögur lið sig úr. Minnesota Vikings og Philadelphia Eagles voru með besta árangurinn, en Los Angeles Rams og New Orleans Saints fylgdu fast á eftir. Los Angeles var slegið út í fyrstu umferðinni af Atlanta Falcons, þannig að í undanúrslitum landsdeildar leikur Minnesota Vikings heima gegn New Orleans Saints og Atlanta ferðast til Philadelphia í hinum leiknum.

Ómögulegt er að spá um úrslitin í þessum leikjum þar sem aðalleikstjórnandi Philadelphia er meiddur og New Orleans er nú í mikilli uppsveiflu. Ruðningsíþróttin er ein af fáum liðsíþróttum þar sem leikmaður í einni leikstöðu hefur mun meiri áhrif á leikinn en aðrir. Staða leikstjórnanda (quarterback) er svo mikilvæg að þegar byrjunarleikmaðurinn í þessari stöðu meiðist getur allt farið úr skorðum. Því er mikilvægt að lið hafi góða varamenn í stöðunni.

Hinn fertugi Tom Brady hjá New England er dæmi um þetta. Hann er almennt talinn besti leikstjórnandinn í sögu deildarinnar og hefur verið leikstjórnandi liðsins undanfarin átján ár. Með hann innanborðs – og kannski besta þjálfarann í sögu deildarinnar, Bill Belichick – hefur New England haft yfirburði í Ameríkudeildinni undanfarna tvo áratugi. Brady virðist ekkert vera að gefa eftir þrátt fyrir aldurinn, en sjaldgæft er að leikmenn geti verið á toppnum fertugir í þessari erfiðu íþrótt.

Sjá alla grein Gunnars í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert