Hrafnhildur er hætt – „Best að hætta á toppnum“

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Þau óvæntu tíðindi bárust í dag að sundkonurnar Hrafnhildur Lúthersdóttir og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, afrekskonur úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, væru hættar.

Snýr það aðallega að alþjóðlegum mótum, hvort sem er hér heima eða erlendis. Hrafnhildur orðaði það svo við mbl.is að landsliðshettan væri komin á snagann og afreksferlinum sem slíkum væri lokið, en hún gæti aldrei skilið við sundið.

„Við myndum þó aldrei segja nei ef SH bæði okkur að keppa á einhverju bikarmóti. Svo veit maður aldrei nema maður skrái sig í eina og eina grein á Íslandsmeistaramótum,“ sagði Hrafnhildur en á þó ekki von á því að það verði á næstunni.

„Við ætlum að taka okkur kærkomið frí og einbeita okkur að öðrum hlutum. Við erum báðar í skóla og vinnu og erum bara að reyna að byggja upp framtíðina,“ sagði Hrafnhildur og veit hversu mikið hark það er að vera afreksíþróttamaður á Íslandi.

„Já algjörlega, sérstaklega þegar ekki er neitt borgað. Þá er ekki hægt að gera mikið.“

Það að ákvörðunin komi á þessum tímapunkti, var það vegna þess að þið þurftuð að ákveða hvort þið ætluðuð á fullu að reyna að komast á Ólympíuleikana í Tókýó 2020?

„Fyrir mig þá var Tókýó ekki endilega mikið í augsýn. 2014 var ég eiginlega búin að segjast ætla að hætta eftir ÓL 2016, en af því mér gekk svo vel þá gat ég bara ekki hætt. Ég þraukaði áfram í eitt ár í viðbót og það gekk vel,“ sagði Hrafnhildur.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir.
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir. mbl.is/Hari

Á eftir að fatta hvað ferillinn var frábær

Hrafnhildur kvaddi alþjóðlega keppni á EM í 25 metra laug í síðasta mánuði þar sem hún hafnaði í 5. sæti í 50 metra bringusundi og margbætti Íslandsmet sitt.

„Þetta er búið að vera rosalega gaman og ég er eiginlega bara að hætta á toppnum. Það er besta leiðin held ég. Við erum að kveðja ennþá með ást og sundi og góðar minningar, eins og við viljum hafa það,“ sagði Hrafnhildur.

Þrátt fyrir að hafa áður rætt um að hætta, var erfitt þá að stíga skrefið til fulls núna?

„Þetta er búið að meltast hjá okkur svolítið lengi, hvort og hvernig við ætluðum að gera þetta. Sem afreksíþróttakonur er maður alltaf með markmið og vill gera betur, svo það hefur verið mjög erfitt að taka ákvörðunina. Það var gott að gera það á svona þakkargjörðarhátíð þar sem við gátum veitt viðurkenningar til fólksins í kringum okkur sem hefur staðið við bakið á okkur og verið til staðar.“

Hrafnhildur segist horfa afar ánægð um öxl.

„Algjörlega og ég get ekkert annað. Ég er búin að eiga frábæran feril og það mun örugglega taka tíma að fatta hvað þetta var góður ferill. Maður fékk aldrei tíma til þess að setjast niður og melta það því það var alltaf næsta sund og næsta mót. Nú get ég tekið tíma í að sjá hvað þetta var frábært,“ sagði Hrafnhildur. En hvað tekur við?

„Ég ætla mér að komast inn í læknisfræði og þá tekur það alveg við, enda heilmikið nám. Ég ætla að hella mér út í það en við Ingibjörg segjum þó ekki alveg bless við sundið. Ég er til dæmis að þjálfa litla krakka og sit í stjórn Sundsambandsins,“ sagði Hrafnhildur og þær báðar vilja halda áfram að gefa af sér til yngri kynslóða.

Reyna að gera sundheiminn betri, eins og hún orðaði það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert