Alfreð klár í afar mikilvægan leik

Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. AFP

Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í knattspyrnu, snýr aftur í leikmannahóp Augsburg í dag þegar liðið sækir Borussia Mönchengladbach heim í afar mikilvægum leik í 19. umferð þýsku 1. deildarinnar í knattspyrnu.

Alfreð missti af fyrsta leik Augsburg eftir jólafríið vegna hásinarmeiðsla en hann meiddist í síðasta leiknum fyrir frí, í 3:3-jafntefli við Freiburg þar sem Alfreð skoraði þrennu í annað sinn á tímabilinu. Alfreð veiktist í síðustu viku en hefur notið meðhöndlunar vegna meiðslanna og gat svo æft í tvígang með öðrum leikmönnum liðsins í þessari viku. Ekki hefur verið ákveðið hvort Alfreð komi við sögu í leiknum í dag.

Augsburg vann Hamburg 1:0 í fyrsta leik eftir jólafríið og er í harðri baráttu um Evrópusæti. Liðið endaði stigi frá fallsæti á síðustu leiktíð en er nú í 7. sæti, en það veitir sæti í forkeppni Evrópudeildar fari svo að eitthvert liðanna í 1.-6. sæti verði bikarmeistari. Liðið er aðeins stigi á eftir andstæðingi dagsins, Mönchengladbach, sem og Leverkusen. Efstu fjögur sæti deildarinnar eru svokölluð Meistaradeildarsæti og er Augsburg tveimur stigum á eftir Dortmund sem er í 4. sæti.

Orðaður við stórlið

Alfreð er þriðji markahæstur í þýsku deildinni með 11 mörk. Hann var í gær orðaður við stórlið Dortmund á vefmiðlinum Calcio Insider sem sagði félagið hugsa Alfreð sem hentugan arftaka fyrir Pierre-Emerick Aubameyang sem mun vera á förum nú í janúar. Aubameyang er næstmarkahæstur í deildinni með 13 mörk. Samkvæmt Calcio Insider vilja forráðamenn Augsburg hins vegar halda Alfreð og freista þess að ná Evrópusæti, í annað sinn í sögu félagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert