Íslenskir Norðurlandameistarar í taekwondo

Hluti hópsins sem gerði góða ferð til Finnlands á NM …
Hluti hópsins sem gerði góða ferð til Finnlands á NM í taekwondo. Ljósmynd/Facebook-síða TKÍ

Íslendingar rökuðu til sín verðlaunum á Norðurlandameistaramótinu í taekwondo sem fram fór í Finnlandi nú um helgina.

Hákon Jan Norðfjörð varð Norðurlandameistari í poomsae, í junior flokki, en hann stóð uppi sem sigurvegari í baráttu við 25 aðra keppendur í þeim flokki. Hákon hlaut samtals 69,90 stig en næstur honum varð heimamaðurinn Mico Knutsson með 68,20 stig.

Hákon, Eyþór Atli Reynisson og Þorsteinn Ragnar Guðnason tóku svo silfur í hóp-poomsae, og voru aðeins 0,01 stigi frá Norðurlandameistaratitli þar. Hákon fékk svo brons í „freestyle“ en Halldór Freyr Grettisson fékk þar silfur.

Gerður Eva Halldórsdóttir varð Norðurlandameistari í „freestyle“, í flokki yngri en 17 ára, þar sem sjö keppendur tóku þátt. Ásthildur Emma Ingileifardóttir fékk bronsverðlaun í sama flokki. Steinunn Selma Jónsdóttir varð svo Norðurlandameistari í „freestyle“ 17 ára og eldri, og María Guðrún Sveinbjörnsdóttir fékk silfur, en þær voru einu keppendurnir í þeim flokki.

Þá urðu Álfdís Freyja Hansdóttir, Snorri Bjarkason, Halldór Freyr, Hákon og Gerður Eva Norðurlandameistarar í hópa-freestyle, enda eina liðið í þeirri keppni.

Fimm Norðurlandameistarar í kyorugi

Ísland eignaðist fimm Norðurlandameistara í kyorugi. Meisam Rafiei varð Norðurlandameistari í -58 kg flokki karla og Dagný María Pétursdóttir í -73 kg flokki kvenna.  Í yngri flokki vann Andri Sævar Arnarsson titilinn í -59 kg flokki, Leo Speight í -68 kg flokki, og Eyþór Jónsson í -73 kg flokki.

Kristmundur Gíslason fékk silfur í -80 kg flokki karla. Iðunn Anna Eyjólfsdóttir fékk silfur í -44 kg flokki cadet kvenna. Ingibjörg Erla Grétarsdóttir fékk silfur í -62 kg flokki fullorðinna kvenna, og María Guðrún Sveinbjörnsdóttir fékk brons í -57 kg flokki. Natan Hjaltason fékk silfur í -55 kg flokki junior, og Snorri Bjarkason brons, og Halldór Gunnar Þorsteinsson fékk brons í -73 kg flokki.

Nánar má lesa um mótið á Facebook-síðu Taekwondo á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert