Sjötti besti tími Íslendings

Tiana Ósk Whitworth heldur áfram að gera góða hluti.
Tiana Ósk Whitworth heldur áfram að gera góða hluti. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Spretthlauparinn Tiana Ósk Whitworth sló Íslandsmet í 60 metra hlaupi á Stórmóti ÍR í frjálsum íþróttum í Laugardalshöllinni í gær. Hún náði svo sjötta besta tíma Íslendings frá upphafi í 200 metra hlaupinu í dag. Hún hljóp á 24,39 sekúndum og tók gullið. Íslandsmet Silju Úlfarsdóttir er 23,79 sekúndur.

Hugi Harðarson kom fyrstur í mark í 800 metra hlaupi karla á 1:58,31 mínútu og Bjartmar Örnuson hafði mikla yfirburði í 3.000 metra hlaupinu er hann hljóp á 8:52,54 mínútum. Fjölþrautarmaðurinn Einar Daði Lárusson vann 60 metra grindahlaupið á 8,36 sekúndum. Bjarki Viðar Kristjánsson stökk 1,87 metra í hástökkinu og tók gullið og Bjarki Gíslason stökk hæst í stangarstökkinu, 4,80 metra. 

Hin færeyska Rebekka Fuglø vann 800 metra hlaupið með yfirburðum er hún hljóp á 2:20,74 mínútum. Helga Guðný Elíasdóttir vann svo 3.000 metra hlaup á 10:53,46 mínútum. Í 60 metra grindahlaupi var María Rún Gunnlaugsdóttir fljótust á 8,88 sekúndum. Guðrún Heiða Bjarnadóttir vann langstökkið með stökk upp á 5,77 metra og í kúluvarpinu varð hin 17 ára Erna Sóley Gunnarsdóttir best. Hún kastaði lengst 13,65 metra og tók gullið. 

Alls voru sjö mótsmet slegin á mótinu og þar af eitt Íslandsmet. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert