Mikilvægu samstarfi haldið áfram

Frá undirritun samningsins í dag, f.v. Hannes Jónsson, formaður KKÍ, …
Frá undirritun samningsins í dag, f.v. Hannes Jónsson, formaður KKÍ, Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, Guðni Bergsson, formaður KSÍ, Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF, Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri ÍF, Björgólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Icelandair, Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, Hansína Þorkelsdóttir, ritari GSÍ, og Kristín Guðmundsdóttir, gjaldkeri GSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar íþróttahreyfingarinnar skrifuðu í dag undir nýjan styrktarsamning við Icelandair til næstu fimm ára. Um er að ræða stærsta styrktarsamning sem hreyfingin hefur gert við Icelandair. Auk Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, ÍSÍ, eru Golfsambandið, Handknattleikssambandið, Íþróttasamband fatlaðra, Körfuknattleikssambandið og Knattspyrnusambandið aðilar að samningnum.

„Þessi samningur er gríðarleg mikilvægur fyrir okkur. Við hjá ÍSÍ erum í ólympíuverkefnum um allan heima og þá er mikilvægt að hafa samstarf við Icelandair hefur mjög stórt net flugleiða sem stækkar sífellt,“ sagði Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, við mbl.is eftir undirritun samningsins í dag sem fram fór í þjálfunarsetri Icelandair í Hafnarfirði. „Við erum afar ánægð með að geta landað svona stórum samningi.“

Samningurinn felur í sér víðtækt samstarf Icelandair og fyrrgreindra íþróttasambanda. Meðal annars getur landsliðsfólk á vegum ÍSÍ í öllum aldursflokkum kvenna og karla nýtt sér áætlunarflug Icelandair til yfir 50 áfangastaða í Norður-Ameríku og Evrópu. Icelandair hefur um áratugaskeið átt samstarf við íþrótthreyfinguna. 

Lárus segir umsvif ÍSÍ eins og sérsambandanna alltaf vera að aukast. „Á hverju fjögurra ára tímabili erum við þátttakendur í ellefu ólympískum viðburðum.“

Ekki liggur fyrir hversu marga íslenska íþróttamenn Icelandair flýgur með ár hvert en þeir skipti örugglega þúsundum að að sögn Lárusar.

Verðmæti samningsins er ekki gefið upp.

„Við hjá Icelandair erum mjög stolt að halda ánægjulegu samstarfi við ÍSÍ áfram. Íslendingar eiga afreksfólk á heimsmælikvarða í nánast öllum greinum og það er okkur sönn ánægja að geta staðfest áframhaldandi stuðning við margar af fyrirmyndum Íslands,“ segir Björgólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri  Icelandair, í fréttatilkynningu. „Íþróttir eru mikill drifkraftur ferðalaga um allan heim, ekki síst í ár þegar margir munu leggja leið sína til Rússlands eða fylgjast með okkar bestu kylfingum.“

„Samstarf við Icelandair skiptir okkur miklu máli. Við ferðumst mikið með okkar landslið og þá er mikilvægt að eiga traustan bakhjarl sem stendur þétt við bakið á okkur eins og Icelandair gerir,“ sagði Kristin Guðmundsdóttir, gjaldkeri Golfsambands Íslands, við mbl.is. „Auk þess er Icelandair okkar helsti styrktaraðili fyrir golfmót plús 35 ára kylfinga og Íslandsmót eldri golfara sem er fjölmennasti hópur kylfinga hér á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert