Tíana Ósk náði markmiðinu í fyrsta hlaupi ársins

Tíana Ósk Whitworth á harðaspretti á Stórmóti ÍR um helgina.
Tíana Ósk Whitworth á harðaspretti á Stórmóti ÍR um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíana Ósk Whitworth, hlaupari úr ÍR, setti sér markmið fyrir nýbyrjað ár og það var að bæta Íslandsmetið í kvennaflokki í 60 metra hlaupi. Hún náði markmiði sínu strax í fyrsta hlaupi ársins þegar hún kom í mark á 7,47 sekúndum á Stórmóti ÍR í Laugardalshöllinni. Þar með bætti hún met Hrafnhildar Eirar frá árinu 2015 sem var 7,50 sekúndur. Ekki slæmt að hefja árið með þessum hætti. Þar sem Tíana Ósk er á átjánda aldursári er þetta að sjálfsögðu einnig met í flokki 18-19 ára og 20-22 ára.

„Ég setti mér það markmið að bæta þetta met á árinu, en það er bara frábært að ná því markmiði í fyrsta hlaupi ársins. Vonandi verður framhald á þessu hjá mér á árinu, en nú þurfum við þjálfarinn minn að setja okkur ný markmið og ákveða hvað næsta skref verður,“ sagði Tíana Ósk í samtali við Morgunblaðið eftir að Íslandsmetið var í höfn.

Hún bætti sig um 12 sekúndubrot í 60 metra hlaupinu og það er ekki svo lítið enda ekki langt hlaup. „Þetta er svolítið mikil bæting í 60 metrunum og ég er rosalega ánægð með það. Styttri hlaupin eru mitt sterkasta,“ sagði Íslandsmethafinn, sem á nokkur aldursflokkamet, „en þetta er fyrsta Íslandsmetið sem ég set í kvennaflokki,“ segir hún.

Nánar er fjallað um Stórmót ÍR í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert