Landsliðskonu í fimleikum nauðgað í keppnisferð

Tinna Óðinsdóttir.
Tinna Óðinsdóttir. mbl.is/Eva Björk

Tinna Óðinsdóttir, afrekskona í fimleikum, hefur stigið fram og greint frá því að henni hafi verið nauðgað af landsliðsmanni frá öðru landi í keppnisferðalagi í Þýskalandi. Hún var þar á ferð með íslenska landsliðinu.

Tinna greinir frá þessu í samtali við Nútímann, en um var að ræða lokahóf eftir síðasta mótið á tímabilinu. Eftir að hafa verið úti að skemmta sér fór Tinna ásamt hópi fólks í eftirpartý á hóteli karlkyns keppenda frá öðru landi.

„Ég og vinkona mín vorum eftir á hótelinu að spjalla en allt í einu breyttist andrúmsloftið og allt varð öðruvísi. Við fundum þetta augljóslega báðar og horfðum hvor á aðra og vildum komast í burtu en það var þá sem þetta byrjaði allt,“ sagði Tinna og lýsir því að mennirnir hafi haldið henni niðri og reynt að kyssa hana.

Þannig fór að tveir menn héldu Tinnu niðri á meðan sá þriðji nauðgaði henni. Hún hafi gefist upp eftir að hafa reynt að berjast um og sagt þeim að hætta.  „Það á alveg að vera nóg. Þeir gerðu sér alveg grein fyrir hvað þeir voru að gera. Ég varð alveg máttlaus og ég gerði mér grein fyrir því að ég var ekki að fara að komast neitt í bráð,“ sagði Tinna og lýsir verknaðinum nánar.

Ég fann líkamlega ekkert fyrir þessu. Það var eins og heilinn í mér hafi blokkað allt út. Ég fór einhvern veginn úr líkama mínum og horfði á þetta gerast. Ég geri mér einfaldlega ekki grein fyrir hversu langan tíma þetta tók,“ sagði Tinna, en mennirnir hafi svo hent í hana fötunum sínum og sent út í lyftuna á hótelinu.

Tinna segir að ekki sé langt síðan hún hafi sagt Fimleikasambandi Íslands frá málinu og þar hafi hún upplifað mikinn stuðning.

„Þau voru til staðar fyrir mig, hvöttu mig til að stíga fram og vildu aðstoða mig ef ég vildi kæra,“ sagði hún, en ítarlegri frásögn af málinu má lesa í frétt Nútímans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert