Norskur skíðakappi grýttur í miðri keppni

Henrik Kristoffersen lét óánægju sína í ljós þegar hann kom …
Henrik Kristoffersen lét óánægju sína í ljós þegar hann kom í mark. AFP

Norski skíðakappinn Henrik Kristoffersen lenti í ljótu atviki þegar hann var við keppni í heimsbikarnum í Austurríki í gærkvöldi.

Kristoffersen var í harðri baráttu um efsta sætið í svigi við heimamanninn Marcel Hirscher. Áhorfendur voru á bandi þess síðarnefnda og nokkrir tóku sig til og fóru að grýta snjóboltum í átt að Kristoffersen þegar sá norski var á fullri ferð í brautinni.

Kristoffersen náði að halda einbeitingu niður brautina, en um leið og hann kom í mark lýsti hann yfir ósætti sínu og kvartaði yfir hegðun áhorfenda. Andstæðingar hans í keppninni fordæmdu einnig verknað áhorfenda, enda getur verið um stórhættu að ræða.

Svo fór að heimamaðurinn Hirscher var með besta samanlagða tímann og Kristoffersen tók silfur. Sá norski var hins vegar með íþróttaandann í fyrirrúmi þegar hann sagði að Austurríkismaðurinn hefði einfaldlega skíðað betur.

Ferð Kristoffersen í brautinni í gær þegar snjóboltarnir flugu má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert