Toppliðin styrktu stöðu sína

Frá leik Þróttar Nes og HK í dag.
Frá leik Þróttar Nes og HK í dag. Ljósmynd/Þróttur Nes

KA og HK unnu góða sigra í Mizuno-deild karla í blaki í kvöld og styrktu í leiðinni stöðu sína í efstu tveimur sætum deildarinnar. KA vann 3:1-sigur á Stjörnunni á heimavelli og HK vann 3:2-sigur á útivelli gegn Þrótti Nes.

Stjarnan komst óvænt í 1:0 gegn KA á Akureyri með 30:28-sigri í fyrstu hrinu. KA svaraði hins vegar með 25:13, 25:18 og 25:19-sigrum í næstu þremur hrinum og vann með því leikinn. KA er í toppsætinu með 35 stig og Stjarnan í 4. sæti með 15 stig. 

Þróttur Nes og HK skiptust á að vinna fyrstu fjórar hrinurnar í Neskaupstað. HK vann fyrstu, 26:24, Þróttur svaraði, 25:20 og komst yfir með 25:22-sigri í þriðju hrinu. HK vann hins vegar næstu tvær; 27:25 og 15:13 í æsispennandi leik. HK er í 2. sæti með 29 stig og Þróttur Nes í 3. sæti með 21 stig.

mbl.is