Tveir dagar í röð hjá Freydísi

Freydís Halla Einarsdóttir.
Freydís Halla Einarsdóttir. Ljósmynd/SKÍ

Freydís Halla Einarsdóttir keppir tvo daga í röð á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang, í kjölfarið á frestun á stórsvigskeppninni sem fram átti að fara í gærmorgun, eða í fyrrinótt að íslenskum tíma.

Hvassviðri á svæði alpagreinanna hefur sett strik í reikninginn á leikunum til þessa.

Vonast er til þess að hægt verði að ljúka fyrstu keppni í alpagreinum á leikunum snemma í dag en þá er tvíkeppni karla, brun/svig, á dagskránni.

Ef veður leyfir keppir Freydís í svigi í nótt, á miðvikudagsmorgni að staðartíma í Suður-Kóreu, en fyrri ferðin er á dagskrá klukkan 1.15 að íslenskum tíma. Seinni ferðin er síðan klukkan 4.45. Keppendur í greininni eru 74 og af þeim eru 56 með betri stöðu í FIS-stigum en Freydís Halla.

Stórsvigið er á dagskránni sólarhring síðar, eða á fimmtudagsmorgninum 15. febrúar. Þá hefst fyrri ferðin klukkan eitt um nóttina að íslenskum tíma og seinni ferðin klukkan 4.45. Þar er 81 keppandi skráður til leiks og Freydís er í 60. sæti, miðað við FIS-stigin.

Þar á milli, eða klukkan hálfþrjú um nóttina að íslenskum tíma, fer fram keppni í bruni karla sem var frestað um helgina vegna veðurs.

Ísak keppir í dag

Ísak Pedersen keppir í sprettgöngu karla í Pyeongchang í dag. Undankeppnin hefst klukkan 9.15 að íslenskum tíma, eða 18.15 að staðartíma. Ísak verður númer 71 í röðinni af 80 keppendum, en þeim er raðað samkvæmt FIS-stigum, og hann á að fara af stað klukkan 18.32 samkvæmt dagskrá göngunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert