Loks laus við þessa leiðindaspurningu

Marcel Hirscher á fullri ferð í Pyeongchang.
Marcel Hirscher á fullri ferð í Pyeongchang. AFP

„Nú er ég laus við þessa leiðindaspurningu, um hvort ferillinn minn geti talist fullkominn án ólympíugullverðlauna. Nú er búið að eyða þessari spurningu,“ sagði Austurríkismaðurinn Marcel Hirscher, eftir sigur sinn í alpatvíkeppni á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang.

Þessi 28 ára gamli skíðamaður hefur átt magnaðan feril í alpagreinum og meðal annars unnið heildarstigakeppni heimsbikarmótaraðarinnar sex ár í röð. Hann þykir afar sigurstranglegur í svigi og stórsvigi í Pyeongchang en átti þar til í gær aðeins ein ólympíuverðlaun í sínu safni, úr stórsvigi í Sochi fyrir fjórum árum. Það virtist því þungu fargi létt af kappanum í gær:

„Það hafa allir verið að segja: „Flottur ferill, en það vantar ennþá ólympíugull“. Þetta er fullkomið, ótrúlegt. Ég er ekki á leiðinni heim á morgun en ég gæti það ef ég vildi því ég er þegar búinn að ná stóra markmiðinu mínu. Það bjuggust allir í Austurríki við því að ég kæmi heim með að minnsta kosti ein gullverðlaun. Ég er himinlifandi, enda bjóst ég ekki við því að vinna þau í tvíkeppninni,“ sagði Hirscher.

Þetta gætu verið síðustu leikarnir þar sem keppt er í alpatvíkeppni, en í þeirri grein er keppt í bruni og svigi og tíminn úr hvorri grein lagður saman. Hirscher náði 12. besta tíma í bruninu sem dugði til því hann var fljótastur í sviginu og endaði samanlagt 23/100 úr sekúndu á undan Frakkanum Alexis Pinturault. Hætta á alpatvíkeppni í heimsbikarnum veturinn 2019-2020 og líklegt er að alþjóða ólympíunefndin taki greinina út af leikunum í kjölfarið, í algjörri óþökk Hirscher og fleiri sem bent hafa á hve ríka sögu alpatvíkeppni eigi sér.

Nánari umfjöllun um Vetrarólympíuleikana má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »